Ljósmyndabókin Hrísey

Ljósmyndabókin
Ljósmyndabókin

Haustið 2013 ákvað ég loksins að láta langþráðan draum rætast um að læra ljósmyndun og skellti mér í nám í Ljósmyndaskólanum. Eftir að hafa farið í viðtalið og sýnt myndirnar mínar fékk ég að vita að ég hefði komist inn í námið. 

Námið er tvö og hálft ár eða 5 annir undir leiðsögn margra af þekktustu ljósmyndurum og listamönnum landsins. Námið byrjar algerlega á grunninum fyrstu önnina þannig að þegar komið er á aðra önnina eru allir á sama stað þekkingarlega séð. Eftir fyrstu önnina fara allir að fikra sig smátt og smátt í þá átt sem þeir vilja halda með ljósmyndunina sína þó svo auðvitað höfum við verið látin prufa allar gerðir og hliðar ljósmyndunar og margir fundið sig í annari tegund af ljósmyndun en þeir lögðu upp með. 

Námið er í senn eitthvað það erfiðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur en líka það allra skemmtilegasta. Maður kynnist ógrynni af frábæru fólki og myndar góðar og sterkar tengingar í gegnum allt námið sem koma til með að nýtast manni að námi loknu.  

Síðastliðið vor hófust miklar pælingar og vangaveltur um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur í lokaverkefninu mínu í ljósmyndaskólanum. Eftir talsverða umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði að taka fyrir heimildaverkefni. Fyrir valinu varð einn af fallegri stöðum á Íslandi að mínu mati, Hrísey sem jafnan er kölluð ,,perla" Eyjafjarðar. 

Ég byrjaði að mynda fyrir verkefnið seinni partinn í júní og fór þá í smá skissuferð til eyjunnar. Þar byrjaði ég að teikna upp hugmyndirnar mínar og mynda það sem þá bar fyrir augu og fór einnig í gegnum gamlar myndir sem voru í húsi Hákarla Jörundar í Hrísey. 

Eftir þessa fyrstu ferð fór ég og hitti leiðbeinandann minn hann Einar Fal sem ég hafði óskað eftir strax frá byrjun, sýndi ég honum afraksturinn og sagði frá hugmyndum mínum.

Eftir samræður okkar og yfirferð á myndum vorum við sammála um að ég myndi byggja verkefnið uppá portrait, staðar- og mannlífsmyndum. Ég nýtti tengingu mína við eyjuna til þess að gera verkefnið persónulegra, dýpra og nánara en það hefði orðið ef ég hefði verið eyjunni og íbúum hennar algerlega ókunn. 

Eftir fyrsta fund með leiðbeinandanum mínum var ákveðið að svona viðamikið og mikilvægt verkefni ætti ekki heima á neinu öðru formi en í bókaformi. Þar með hófst vegferð mín með Hrísey sem reyndist óvænt og ánægjulegt ævintýri sem gerði lokaverkefni mitt við Ljósmyndaskólann að lærdómsríku og ómetanlegu ferli fyrir mig sem ljósmyndara. Ég tók ástfóstri við eyjuna strax frá fyrstu kynnum og því langaði mig með þessu verkefni að sýna fram á alla hennar helstu kosti. Einnig langaði mig að vekja fólk til umhugsunar um hvað hefur í raun orðið um mörg af þessum minni samfélögum sem áður byggðust upp á sjómennsku og fiskvinnslu.

Unnur Ósk Kristinsdóttir. 
unnuroskk@gmail.com