Málverkasýning Stephanie Clark í Hrísey.

  Síðustu vikurnar hefur bandaríski listamaðurinn Stephanie Clark búið og starfað í Gamla skóla Norðanbáls í Hrísey og heldur um helgina sýningu á afrakstri vinnu sinnar í Húsi Hákarla–Jörundar. Sýningin verður opnuð föstudaginn 20. mars og stendur til mánudagsins 23. mars. Opið er frá kl. 17–21 alla dagana. Yfirskrift sýningarinnar er „Eitthvað kosmískt“ og segist Stephanie fyrst og fremst vera að velta fyrir sér sambandi umhverfis og skynjunar. Hún hefur sérstakan áhuga á þeirri margræðni sem er fólgin í því með hversu ólíkum hætti við upplifum landslagið og náttúruna. Hún málar lítil málverk sem endurspegla augnablik óhlutbundinnar skynjunnar en vísa um leið til hefðbundinnar byggingar landslagsmynda fyrri tíma. Málverkin lýsa því hvernig staðhættir og umhverfi hefur opnað sig fyrir Stelphanie meðan á dvöl hennar í Hrísey hefur staðið. Stephanie Clark fæddist í Alamogordo í Nýju Mexíkó árið 1988 en býr nú í Minneapolis. Hún hefur stundað listnám í Boston og við Háskólann í Norður–Dakota. Nánari upplýsingar um Stephanie og verk hennar er að finna á heimasíðunnihttp://stephaniemclark.squarespace.com/.