Föstudagsfréttir

Hrísey í vetrarbúning
Hrísey í vetrarbúning

Síðasti föstudagur febrúarmánaðar í dag og veðrið hefur gefið okkur smjörþef af vori.

Vikan hefur verið róleg hérna í eyjunni okkar. Lífið gengur sinn vanagang og þannig er það nú oftast best. Veðrið hefur, eins og fram kom, verið aðeins að sýna sól og hlýju, dagsljósið eykst daglega og hefur smá vorfiðringur gert vart sig hjá mörgum eyjaskeggjum. Við látum þó ekki blekkjast og vorum líka harkalega minnt á að enn sé febrúar á Íslandi þegar vatnið fraus á götunum og létt snjóþekja yfir. Erfitt var fyrir bæði gangandi og keyrandi að ferðast um göturnar en sem betur fer urðu engin alvarleg slys en þó nokkrir föðmuðu hellurnar óviljandi. 

Sólin og gönguskíðabrautirnar sem eru gerðar um eyjuna voru vel nýtt síðustu helgi og þessa vikuna. Hrísey er algjör vetrarparadís og sífellt fleiri eru að átta sig á því hversu gott það getur verið að koma hingað í heimsókn eða búa hér allt árið um kring. Vor, sumar, haust og vetur, allar árstíðir hafa sinn sjarma og sína kosti. 

Næstkomandi sunnudag er konudagur og mun foreldrafélagið fara í hús og selja fallega blómvendi um helgina. Verbúðin 66 er með konudagskaffi og við hvetjum ykkur til þess að gera vel við konurnar í lífi ykkar, eða ykkur sjálfar, í tilefni dagsins.

Aðalfundur kvenfélagsins verður haldinn á konudaginn og eru þær konur sem áhuga hafa á því að taka þátt í starfinu eða kynna sér kvenfélagið hvattar til þess að hafa samband á netfangið hrisey@kvenfelag.is.

Föstudagsfréttir verða í fríi næsta föstudag. Eða, réttara sagt, fréttaritari ætlar að taka sér nokkurra daga alvöru frí og verður því lítið um að vera á samfélagsmiðlum og föstudagsfréttir detta út einn föstudag. Vonandi gerist ekker of krassandi svona rétt á meðan, en ef svo ferð þá verða föstudagsfréttirnar þann 8.mars mjög spennandi og langar!

Hríseyjarbúðin tekur á móti pizzupöntunum frá klukkan 16:00 í dag, föstudag, og á morgun, laugardag, er opið í Verbúðinni 66. Íþróttamiðstöðin verður á sínum stað en okkar aðal maður í gönguskíðabrautargerð verður í Menntabúðum Björugnarsveita í Skagafirði um helgina, svo gönguskíði með frjálsri aðferð eru málið um helgina.

Veðrið verður ágætt, hiti rétt neðan við frostmark á laugardegi og góðar líkur á ofankomu, vindur 7 m/s. Sunnudagur ber nafn með réttu því sólin ætlar að sýna sig þó frost verði allt að 8 gráður og vindur 7m/s.

Myndir sem fréttaritari tók í blíðunni einn daginn fylgja fréttum dagsins. Hvað getur þú séð margar rjúpur á milli trjánna?