Föstudagsfréttir

Vikan í Hrísey var full af lífi og gleði, enda margt fólk sem eyddi haustfríi sínu í eyjunni. 

Kótilettukvöldið á Verbúðinni 66 var vel sótt þann fyrsta dag vetrar, og mikil ánægja gesta var með matinn og kvöldið. Foreldrafélag Hríseyjarskóla bauð í bíó í Sæborg og mættu um þrjátíu manns, börn og fullorðnir. Félagarnir Tímon og Púmba komu öllum salnum til þess að hlægja í teiknimyndinni Konungi ljónanna þrjú. Var þetta skemmtilegt framtak og aldrei að vita nema skellt verði í fleiri bíósýningar í framtíðinni.

Grunnskólabörnin mættu aftur í Hríseyjarskóla eftir notalegt haustfrí en óhætt er að segja að eyjabörnin hafi haft nóg fyrir stafni í vikunni. Ingimar Ragnarsson las upp bangsasögur á bókasafninu í tilefni alþjóðlega bangsadagsins þann 27. október. Mættu um tuttugu börn og fullorðnir að hlýða á lesturinn. Félagsmiðstöðin Draumur bauð upp á hrekkjavökuföndur, þar sem krakkarnir útbjuggu allskyns skrímsli og furðuverur fyrir komandi hrekkjavöku-kvöldvöku. Fyrsti til sjötti bekkur mætti í Æskulýðsfjör í íþróttamiðstöðinni á miðvikudeginum þar sem var mikið fjör. Helgi þjálfari kom á fimmtudeginum og var með fótboltaæfingar fyrir grunnskólakrakkana og styrktaræfingar fyrir unglinga og fullorðna. Hamborgarahádegi var á Verbúðinni á fimmtudeginum og var það skemmtileg tilraunaropnun sem heppnaðist vel. Áfram Hrísey verkefnið var kynnt, sem og verkefnisstýra verkefnisins og veður var til friðs í vikunni.

Núna um komandi helgi verður opið á báðum veitingastöðum Hríseyjar. Föstudagsopnun er á Verbúðinni og villibráðakvöld á laugardagskvöldi á Brekku.

Þó að fyrsti dagur vetrar sé liðinn er ekki snjóþungt hjá okkur og spáð er hita en sólarleysi um helgina. Það er því upplagt að skella sér í frisbígolf eða með fjölskylduna á hátíðarsvæðið í leik.