Föstudagsfréttir

Hrísey
Hrísey

Upp er runninn föstudagur, ákaflega hlýr og fagur. Gott veður hefur verið í vikunni, hiti og sól. Krakkarnir í eyjunni hafa sést á hjólum og úti í leikjum og minnti lok febrúar og byrjun mars meira á maí/júní mánaðarmót! Látum þó ekki blekkjast, enn er langt í vor og veturinn mætir aftur eftir helgina. Samkvæmt veðurspám.

Sund-diskóið á föstudeginum var vel heppnað og frábær mæting! Voru diskóljós úti við laugarnar og inni í klefum svo stuðið var allstaðar. Höfðu bæði börn og fullorðnir gaman að þessu uppátæki og talað um að þetta þyrfti að endurtaka. Við þökkum Báru hjá Íþróttamiðstöð Hríseyjar kærlega fyrir sitt ómetanlega framlag, sem og ungmennafélaginu Narfa. Vel var mætt í fjölskyldubíó UMF Narfa á laugardeginum Horft var á myndina Syngdu 2 á meðan maulað var á poppi, drukkinn djús, hlegið og haft gaman. Stella í orlofi rann svo ljúflega ofan í fullorðna fólkið um kvöldið þar sem ekki var minna hlegið eða popp etið. 

Ungmennafélagið Narfi kemur oft við sögu hér í föstudagsfréttum og það ekki að ástæðulausu. Félagið hefur staðið að allskyns viðburðum ásamt því að halda uppi frábæru íþrótta og tómstundastarfi fyrir alla aldurshópa hér í Hrísey. Það voru því ánægulegar fréttir sem komu í vikunni þegar UMF Narfi fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Formaður Narfa, Hrund Teitsdóttir, sagði við afhendingu viðurkenningarinnar ,,Við í Ungmennafélaginu Narfa í Hrísey erum bæði þakklát og stolt að hljóta viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það er markmið okkar að standa fyrir öflugu starfi og að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum og því frábært að fá þessa viðurkenningu" (tekið af vef ÍSÍ, sjá hér ). UMF Narfi heldur úti dagskrá fimm daga vikunnar, jafnt íþróttatímum sem og að sjá um félagsmiðstöðina Draum í samvinnu við Akureyrarbæ. Félagið sér um jólapóstinn, jólaballið og kemur að viðburðum eins og bíósýningum og böllum. Til hamingju Ungmennafélagið Narfi með viðurkenninguna og takk fyrir allt það sem þið gerið hér í Hrísey.

Sungin voru Evróvisjón- og íslensk dægurlög við guðþjónustu á sunnudagskvöldinu. Ómar Hlynsson og séra Oddur Bjarni spiluðu og sungu með glimrandi ágætan kór mættra eyjaskeggja sér til aðstoðar. 

Virku dagarnir liðu og fólk sinnti sinni vinnu, heilsu og áhugamálum. Það hefur verið gaman að fá vísan að vori með öllu því lífi sem fylgir. d

Slökkviliðið í Hrísey er að taka þátt í skeggkeppni mottumars og eru meðlimir því auðþekkjanlegir (þá þeir meðlimir sem geta látið sér vaxa skegg) á götum eyjarinnar með fínu motturnar sínar. Skeggkeppnin er skemmtilegur hluti af Mottumars þar sem þátttakendur safna ekki bara skeggi heldur einnig áheitum og styðja þannig með ómetanlegum hætti við starf Krabbameinsfélagsins. Hægt er að bæði dást að og styrkja þessa dáðadrengi með því að fara inn á þessa síðu.

Hrísey rataði í fjölmiðla um síðustu helgi þar sem Ásrún var enn að ræða húsnæðismál. Sagði hún frá því að Akureyrarbær sé að vinna að breytingu að skipulagi lóða og hefur hún fylgt því eftir með samtali við starfsfólk Akureyrarbæjar. Verið er að fá ráðgjöf sérfræðinga áður en auglýstar verða breytingar, en von er að þær verði auglýstar fyrir vorið. Hægt er að lesa viðtalið hér og hlusta á það á Bylgjunni hér. Ásrún hefur einnig verið að benda aðilum á styrki sem hægt er að sækja um fyrir nýsköpun og atvinnu. Vill hún koma því hér á framfæri að alltaf er hægt að hafa samand við hana á netfangið afram@hrisey.is og í síma 866-7786. 

Í kvöld, föstudag, eru Svartir Sauðir með tónleika í Hríseyjarkirkju. Er viðburðurinn hér til hliðar á viðburðardagatalinu, en tónleikarni hefjast klukkan 20:00 og er frítt inn.

Um helgina á hitastig að haldast yfir núll gráðum og ofankoma er líkleg. Eftir helgina fer að kólna aftur svo við nýtum síðustu plat-vordagana vel til útiveru og samvista.

                             

UMFN Fyrirmyndafélag (mynd af isi.is)            Klas slökkviðliðsmaður og mottan          Falleg ský yfir Hrísey