Föstudagsfréttir

Verið er að undirbúa viðgerðir á sundlaug
Verið er að undirbúa viðgerðir á sundlaug

Veturinn minnti á sig og Hrísey er nú aftur orðin hvít. 

Sundlaugin er lokuð eins og fram hefur komið hér á hrisey.is og facebooksíðu Íþróttamiðstöðvarinnar. Verið er að vinna í viðgerðum og gera má ráð fyrir að laugin verði lokuð í allt að 3-4 vikur. Verið er að athuga hvort hægt verði að hafa buslulaug og heita pottinn opinn og mun vera greint frá því ef svo verður. Þó að ekki sé hægt að stinga sér til sunds er íþróttasalurinn og líkamsræktin opin og við hvetjum ykkur til þess að nýta ykkur það til heilsubóta. Þá minnum við einnig á fótboltan sem opinn er öllum 13 ára og eldri á fimmtudögum klukkan 18:00, og íþróttir fyrir fullorðna á sunnudögum klukkan 14:00 þar sem er meðal annars farið í badminton og bandý.

Kvenfélag Hríseyjar hélt aðalfund sinn síðasta sunnudag og voru þar teknar inn þrjár nýjar konur í félagið. Heyrst hefur að fjöldi og meðalaldur kvenna í kvenfélagi Hríseyjar miðað við Eyjafjarðarsvæðið, sé með hæsta og lægsta móti. Kvenfélagið vinnur fyrir samfélagið og því ánægjulegt að hríseyskar konur á öllum aldri, búsettar hér allt árið eða hluta árs, hafi áhuga á að starfa fyrir samfélagið sitt. 

Hríseyjarbúðin er alltaf að bæta við sig og prófa nýtt vöruúrval við almenna ánægju viðskiptavina. Lifandi verslun þar sem sannarlega er hlustað á kúnna.

Það var sett stutt, óformleg og meira til gamans en alvöru, könnun inn á Instagramsíðu Hríseyjar, sjá hér. Kom í ljós að meirihluti þeirra sem skoða síðuna og taka þátt í könnun eru ekki búsett í Hrísey, og 12% svarenda sögðu nei við að búa hér en að þeim langi til þess. Við munum taka vel á móti hverjum þeim sem kemur hingað í okkar litla og góða samfélag. 

Ábendingar vegna föstudagsfrétta, afmælisdaga og efnis á samfélagsmiðlum má endilega senda á netfangið afram@hrisey.is þar sem verður farið yfir þær.

Um komandi helgi verður kalt veður og ofankoma. Það stoppar ekki hrausta í göngutúrum eða að kíkja á pizzu-kvöld á Verbúðinni á laugardagskvöldinu. Bara muna eftir húfunni!

Á Instagram var einnig spurt hvernig viðkomandi myndi lýsa Hrísey í einni setningu og við endum föstudagsfréttir á nokkrum orðum sem bárust.

Dásamlegur staður, þér líður heima.

Einstök.

Kyrrð.

Dásemd.

Paradís.

Eitt af undrum veraldar.

Frábær.

Yndisleg.

Æði.

Perla.

Gott samfélag í fallegri náttúru.