Föstudagsfréttir

Díana Björg Sveinbjörnsdóttir, bókasafnsvörður í Hrísey
Díana Björg Sveinbjörnsdóttir, bókasafnsvörður í Hrísey

Kuldinn hefur verið þó nokkur þessa líðandi viku, en Hríseyingum hlýnaði mjög þegar tilkynning frá Íþróttamiðstöðinni barst á miðvikudaginn þess efnis, að pottarnir eru nú opnir á meðan viðgerð á sundlaug stendur yfir!

Síðasta föstudag mætti ungur Hríseyingur, hann Stefán Pétur Bragason og Max-Gormur hundurinn hans, í ráðhús Akureyrarbæjar á fund bæjarstjóra. Stefán gekk í hús í Hrísey og safnaði undirskriftum til stuðnings þess að fá hundagerði í Hrísey. Lausaganga hunda er bönnuð í eynni og hvergi er skilgreint svæði þar sem hundar geta leikið sér frjálsið. Hefur hundum, búsettum í Hrísey, fjölgað á síðustu árum sem og fjórfættum gestum. Tók Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, við undirskriftalistanum og vonandi fáum við flott hundasvæði í Hrísey í náinni framtíð. Getum við þakkað Stefáni Pétri kærlega fyrir flott framtak. Rúv fylgdi Stefáni á fundinn og hægt er að sjá umfjöllun þeirra hér.

Grímseyjarferjan Sæfari er á leið í slipp og var síðasta ferðin út í Hrísey farin í vikunni. Áætlað er að Sæfari verði frá til og með 15.maí. Skipið Þorleifur mun sjá um vöruflutninga til Grímsey á þeim tíma.

Aðalfundur Björgunarsveitar Hríseyjar var haldinn miðvikudaginn 15.mars. Voru þar kjörin í stjórn Gestur Leó Gíslason, Guðmundur Stefánsson og Narfi Freyr Narfason, formaður. Varamenn eru Linda María Ásgeirsdóttir og Óðinn Þór Baldursson. Björgungarsveitin og sjálfboðaliðar hennar vinna ómetanlegt starf, bæði hér og á landsvísu. Það eru ríkidæmi fólgin í góðu fólki.

Vakin var athygli á facebooksíðu Hríseyjar að hægt væri að sækja um verkstjóra/flokkstjóra í Vinnuskólanu og taka þar fram að sækt væri um starf í Hrísey. Vinnuskóli Akureyrarbæjar er fyrir unglinga í 8.-10.bekk grunnskóla og ef nægur fjöldi umsókna í Vinnuskóla berst frá Hrísey í ár verður þörf á verk/flokkstjóra. Nánari upplýsingar um Vinnuskólann, fræðsluna og skemmtanir á hans vegum, munu verða settar hér inn á síðuna þegar nær dregur umsóknartíma.

Bókasafnið í Hrísey heldur úti facebooksíðu þar sem hægt er að fylgjast með opnunartíma og nýjum bókasendingum. Bókasafnið er í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri og fær reglulega bókasendingar þaðan. Einnig er hægt að biðja bókasafnsvörðinn, Díönu, um að óska eftir ákveðnum bókum frá Amtsbókasafninu. Þá er einnig hægt að setjast niður og eiga góða stund með bók í hendi, tefla við aðra gesti og skiptast á bókadómum. Bókasafnið er opið alla þriðjudaga milli 14:00 og 16:00, endilega kíkið við.

Viðburðardagatalið okkar er fullt af lífi og alltaf bætist eitthvað við! Núna um helgina eru tónleikarnir Svartir Sauðir í Hríseyjarkirkju á föstudagskvöldinu og svo mætir Svavar Knútur á Verbúðina á laugardagskvöldinu með tónleika. Þá er upplagt að kíkja í badminton í íþróttahúsinu á sunndaginn klukkan 14:00 og slaka síðan á fyrir næstu viku í pottinum þar á eftir. 

Tískuklæðnaður helgarinnar verður snjógalli, lúffur og húfa. Frostið getur farið niður í -8 gráður, ofankoma á laugardegi en sólin gæti látið sjá sig á sunnudaginn. 

   

Svavar Knútur                               Helena, Steinunn og Sigrún eru Svartir Sauðir