Föstudagsfréttir

Mars var snjóþungur í Hrísey og er Sæunn orðin hvít
Mars var snjóþungur í Hrísey og er Sæunn orðin hvít

Upp er runninn föstudagur og er hann ekki jafn hvítur og hefur verið undanfarið.

Það kyngdi niður snjó í Hrísey síðustu vikur og fátt sem minnti á vorkomu. Núna er farið að hlýna, er á meðan er, og farið að sjást í jarðveginn. 

Þið tókuð líklegast eftir því að engar föstudagsfréttir birtust fyrir viku síðan, en fréttaritari lenti í óhappi og átti erfitt með að pikka á tölvu í nokkra daga. Það kemur því tvöfaldur skammtur í dag!

Frá síðustu fréttum hefur ýmislegt gerst í Hrísey. Vegagerðin samndi við Andey um rekstur á Hríseyjarferjunni út árið 2023 og lýsti yfir sérstakri ánægju með hve vel starfsfólk Andeyjar brást við beiðni þeirra. Hægt er að lesa frétt Vegagerðarinnar hér. Vakti lausnin athygli og fjölluðu fréttamiðlar Norðurlands um málið ásamt því að Rúv tók bæði fréttir af Hríseyjarferju og páska fyrir í síðdeigisútvarpinu sem heyra má hér á mínútu 35. 

Bæjarráð samþykkti að ganga frá þriggja ára samstarfssamningi við Ferðamálafélag Hríseyjar á fundi sínum 23.mars, fyrir áhugasöm má lesa fundargerð bæjarráðs hér.

Svartir sauðir voru með tónleika í Hríseyjarkirkju föstudaginn 17.mars og við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.

Framkvæmdum við sundlaugina er lokið og við getum búist við því að auglýst verði opnun laugarinnar á hverri stundu! Endilega fylgist vel með facebook síðu Íþróttamiðstöðvarinnar í Hrísey. Tíminn var vel nýttur á meðan færri gestir fóru um húsið og eftir að talinn hafi verið allur búnaður í eldhúsi og líkamsrækt kom í ljós að ýmislegt vantaði. Því auglýsir Íþróttamiðstöðin eftir; Gastrobökkum, skálum, stórri hnífaparagrind í uppþvottavélina og að lokum 1kg lóði úr ræktinni. Endilega kíkið í skápa, skúm og geymslur.

Ungmennafélagið Narfi hélt aðalfund í vikunni. Ekki þurfti að kjósa í nýja stjórn og halda því áfram Hrund Teitsdóttir, formaður, Ingólfur Sigfússon, gjaldkeri og Díana Björg Sveinbjörnsdóttir, ritari. Við hvetjum þau til áframhaldandi góðra verka.

Frá því síðastliðið haust hefur Helgi þjálfari komið og verið með fótbolta- og styrktaræfingar fyrir börn og unglinga. Var síðasta æfingin núna í vikunni þar sem Helgi er að flytja suður. Krakkarnir í Hríseyjarskóla hafa látið vel af æfingum og hans verður sárt saknað. Takk fyrir okkur Helgi og gangi þér vel í nýjum ævintýrum.

Rafíþróttadeild Narfa var kynnt fyrir áhugasömum börnum og foreldrum í vikunni. Stefnt er á fyrstu æfingu þriðjudaginn 4.apríl. Það er mikill áhugi fyrir starfinu og mun Flosi Þorleifsson sjá um æfingar.

Hríseyjarbúðin bætti við þjónustu í vikunni sem fer af stað í dag! Núna þurfa eyjaskeggjar og gestir ekki lengur að gera föstudagspizzuna sjálf því hana er hægt að panta frá Hríseyjarbúðini og sækja. Skemmtileg viðbót það.

Gestur Leó úr björgunarsveit Hríseyjar fór með snjósleða sveitarinnar og gönguskíðatroðara UMF Narfa upp á ey um síðustu helgi og útbjó gönguskíðabrautir. Það er gott að nýta snjóinn á meðan hann er. Við þökkum Gesti, björgunarsveitinni og UMF Narfa fyrir þessa skemmtilegu viðbót í afþreyingarbankan í Hrísey.

Slökkvilið Hríseyjar tekur þátt í Mottumars og hafa þegar þetta er ritað, safnað 116.000kr fyrir Krabbameinsfélagið! Það er enn hægt að heita á drengina næstu þrjá daga og gerir maður það hérna.

Páskadagskráin er komin og hægt að sjá hana á facebook, í búðinni, í ferjunni og Íþróttamiðstöðinni. Hún mun einnig koma hér inn á hrisey.is og svo má finna viðburðina í viðburðardagatalinu okkar hér til hliðar. 

Í dag er síðasti dagur marsmánaðar og á morgun má gera ráð fyrir að rekast á fólk á hlaupum því það er alltaf jafn gaman að láta einhvern hlaupa fyrsta apríl! Verbúðin hefur auglýst opið laugaradginn 1.apríl og tekur sérstaklega fram að ekki sé um gabb að ræða.

Við sjáum hitatölur um helgina en hitinn getur farið upp í allt að fimm gráður og sólin ætti að leika við okkur. Núna má búast við fjölgun í eyjunni þar sem skólabörn eru komin í páskafrí og mörg sem koma í húsin sín í Hrísey yfir páskana. 

Að lokum þá erum við að safna páskasögum úr Hrísey, stuttum og löngum. Ef þú lumar á skemmtilegri sögu eða minningu máttu endilega senda hana á netfangið afram@hrisey.is 

       

        Rjúpa í vetrarham                            Stjórn UMF Narfa,Díana, Hrund og Ingólfur