Föstudagsfréttir

Svæðisstjórn í heimsókn hjá Björgunarsveit Hríseyjar
Svæðisstjórn í heimsókn hjá Björgunarsveit Hríseyjar

Vikan í Hrísey var góð.

Laugardaginn 5.nóvember var fyrsti grautardagur vetrarins og sá fyrsti í rúmlega eitt ár! Var vel mætt, eða 43 manns, og mikil gleði að þessi skemmtilega hefð sé byrjuð aftur. Á grautardagurinn 15 ára afmæli næsta vor og hefur öll þessi ár verið gríðarlega vinsæll. Stjórn ferðamálafélagsins á þakkir skilið fyrir þetta skemmtilega og góða framtak.

Svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 11 heimsótti eyjuna á þriðjudegi. Eftir velheppnaða hamborgaraferð á Verbúðina var kíkt á Björgunarsveit Hríseyjar, húsnæði skoðað ásamt búnaði og rætt við meðlimi sveitarinnar í Hrísey um ýmis málefni. Björgunarsveitin okkar fjárfesti í sexhjóli fyrr á árinu, björgunarbáturinn Kiddi er kominn heim eftir viðgerðir og starfið hjá sveitinni gengið vel. Salan á Neyðarkallinum/konunni gekk mjög vel og Björgunarsveitin sendi út þakkir til þeirra sem keyptu bæði stóra kallinn og lyklakippurnar í eyjunni. Með þessu góða framlagi styrkist sveitin enn frekar.

Eins og fram kom í fréttum hér á síðunni hefur stiginn frá aðstöðuhúsi og upp á veg á Árskógssandi verið fjarlægður vegna slysahættu. Hvort Dalvíkurbyggð lagi stigan sem var eða komi með nýjan er enn óvitað, en vonandi verður unnið að lausn hratt og örugglega.

Kjötsúpuhádegi á Verbúðinni 66 var vel sótt og mikil ánægja með þessa opnun meðal Hríseyinga. Fólk á öllum aldri bragðaði á mjög svo góðri kjötsúpu og ekki sakaði að fá sér súkkulaðimola og kaffi á eftir.

Fullorðins fótbolti, eða bumbubolti, fór aftur af stað eftir langt hlé fimmtudaginn 10.nóvember. Var vel mætt af konum, körlum og unglingum! Við búum í heilsueflandi samfélagi og því er þetta stórgóð viðbót við aðra hreyfingu sem í boði er hér í Hrísey.

Sundátakið gengur vel og erum við hratt að nálgast kílómetrafjöldan frá því í fyrra. Við hvetjum alla sem geta til þess að synda því sund er bæði gott fyrir sál og líkama. Síðan er líka svo notalegt að slappa af í pottinum eftir sundið.

Krakkarnir í Hríseyjarskóla gengu í hús og dreifðu netorðunum fimm og spakmælum í tilefni af baráttudegi gegn einelti. Einnig hengdu þau upp veggpsjald í Hríseyjarbúðinni með orðunum og spakmælunum svo allir geta lesið.

Um helgina er opið á Verbúðinni á laugardagskvöldi en annars stefnir í hæglætis helgi í eyjunni. Það er um að gera að nýta helgina í að huga að jólaljósunum þar sem veðrið er uppsetningu útiljósa í hag en spáð er 0-6 gráðu hita, lítilli sem engri ofan komu og vindur ætlar að halda sig til hlés að mestu.

Frá Grautardegi í Hlein    Gestir í graut   Svæðisstjórn í heimsókn hjá Björgunarsveit Hríseyjar