Föstudagsfréttir

Þá er nóvember rúmlega hálfnaður og jólaljósin farin að sjást hér og þar um eyjuna.

Um síðustu helgi var töluvert af fólki í eyjunni, Verbúðin var opin og svo var ánægjuleg Allra-heilaga messa í Hríseyjarkirkju á sunnudeginum. Var notalegt að hlusta á ný sameinaðan kór Hríseyjarkirkju, Árskógssandskirkju og Dalvíkurkirkju.

Húsnæðismál voru töluvert í fréttum og fjörugar umræður spruttu upp í kjölfarið jafnt á götum sem samfélagsmiðlum. Umfjöllunin hefur skilað þó nokkrum áhuga á uppbyggingu í Hrísey, en verkefnisstýru Áfram Hrísey hafa borist fyrirspurnir og hugmyndir um skipulag, húsbyggingar og atvinnutækifæri. Eru það akkúrat hluti af þeim viðbrögðum sem vonast var eftir og haldið verður áfram að vinna með. Ásrún hefur setið vikufundi SSNE þar sem farið hefur verið yfir ýmis málefni byggðafélaga hér í kring og alla leið austur á Bakkafjörð. Er áhugavert og lærdómsríkt að vera með í samtali við staði sem margir hverjir glíma við sömu eða svipuð mál og við gerum hér í Hrísey. Einnig hafa verið lögð fram drög af samningi við Akureyrarbæ við verkefnið Áfram Hrísey og aðkomu sveitafélagsins að því. Ferðamálafélagið, hverfisráðið og Áfram Hrísey sendu bréf til þingmanna kjördæmisins varðandi útboð Vegargerðarinnar á Hríseyjarferjunni og nú er beðið svara. Útboðið hljóðar upp meðal annars upp á rétt Vegagerðarinnar um skerðingu/aukningu ferða um 20% á samningstímabilinu, ásamt fleiri þáttum sem koma sér verr fyrir Hrísey. Bæði hverfisráð Hríseyjar og bæjarráð Akureyrarbæjar tóku það mál fyrir á fundum sínum í byrjun nóvember og lesa má fundargerð bæjarráðs hér og hverfisráðs hér.

Ungmennafélagið Narfi afhenti nýja borðtennisspaða og kúlur í vikunni. UMF Narfi hefur stutt vel við íþrótta og tómstundastarf í Hrísey í gegnum tíðina og eftir að félagsmiðstöðin Draumur opnaði hefur Narfi séð fyrir afþreyingu, ferðalögum og veitingum þar. Öflugt íþrótta og æskulýðsstarf er gott veganesti fyrir einstaklinga til framtíðar og við færum UMF Narfa miklar þakkir fyrir góð störf.

Hríseyjarskóli bauð upp á skemmtun á degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember. Lásu nemendur upp heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, útskýrðu og gáfu álit. Einnig fóru leikskólabörn með vísuna um fingurnar og svo var boðið upp á súpu og brauð eftir atriðin. Það er alltaf gaman þegar skólinn okkar býður í heimsókn.

Um helgina gerumst við menningarleg. Í kvöld, 18.nóvember klukkan 20:00, mætir Artic Ópera í Sæborg með söngvarakvöld. Verða þar flutt vinsælustu og frægustu íslensku einsöngvaralögin í huggulegri krárarstemningu. Miðar eru seldir við innganginn svo það borgar sig að mæta snemma.

Það er spáð mildu veðri um helgina og jafnvel smá sólarglætu. Það er því enn hægt að klífa stiga til að setja upp fleiri jólaljós eða fá sér góða göngu um eyjuna.