Föstudagsfréttir

Það er fallegt í Hrísey þegar haustlitirnir taka yfir eyjuna
Það er fallegt í Hrísey þegar haustlitirnir taka yfir eyjuna

Upp er runninn föstudagur í 39 sinn á árinu 2023 og komið að okkar vikulegu fréttum úr Hrísey.

Vikan hefur liðið hratt, verið frekar grá og heldur blaut. En mörg eru þau sem þakka fyrir að enn sé regn en ekki snjór svo við kvörtum nú ekki. Ekki upphátt að minnsta kosti.

Fyrsta frétt, og fyrir suma sú mesta og besta. Heiti potturinn er kominn í lag og er opinn! Húrrahróp heyrðust um allt þorp þegar tilkynningin frá Íþróttamiðstöðinni rataði á netið.

Um liðna helgi var vel mætt á uppistand Begga blinda á Verbúðinni. Mikið var hlegið og það er alltaf gott að hittast og skemmta sér saman. Á sunnudeginum voru svo listakonurnar þrjár sem dvalið hafa í Gamla skóla í september með sýningu og ljóðalestur. Fólk sem dvelur í Gamla skóla lífgar alltaf upp á samfélagið og eyjaskeggjar eru svo sannarlega menningarlegri en margir, enda allt að 12 mismunandi sýningar í Gamla skóla á ári og þá með 2-3 listamönnum í senn.

Síðasta þriðjudag var evrópski tungumáladagurinn og fór Klas Rask í Hríseyjarskóla að segja nemendum frá sínu heimalandi, Svíþjóð. Það er alltaf gaman að brjóta upp skólastarfið og fá heimafólk með í það. 

Hverfisráð Hríseyjar skundaði í land á fund Ásthildar bæjarstjóra á miðvikudaginn. Það er alltaf gott og gagnlegt að ráðið og embættisfólk tali saman, taki stöðuna og segi frá því helsta sem er í gangi og hugur er um í Hrísey og hjá Akureyrarbæ. Talandi um Akureyrarbæ, þá var samþykkt á fundi Skipulagsráðs í vikunni, framkvæmdarleyfi fyrir lagningu á malbikuðum göngustíg í gegnum Hátíðarsvæðið hér í Hrísey. Hægt er að lesa fundargerð Skipulagsráðs hér. 

Núna um helgina verður nýbreytni á Verbúðinni 66 þar sem nautasteik verður á matseðlinum. Það er um að gera að skella sér út að borða eftir að hafa notið þess að liggja í heita pottinum eftir góðan göngutúr um nýja stíginn á Rauðu leiðinni. Haustmessa verður í Hríseyjarkrikju sunndaginn 1.október klukkan 14:00 þar sem nýji organistinn okkar mætir til okkar í sína fyrstu messu.

Það verður nú eitthvað minna um sólskin um helgina en þó ætti að hanga í þurru, hiti verður á bilinu 6-8 gráður og hafgolan verður ekki svo slæm að derhúfan ætti að haldast á.

     

Bergvin Oddsson - Beggi uppistandari                                  Listakona að undirbúa sýningu                             Listakonurnar þrjár í Gamla skóla                                 Haustlistaverk við gönguleiðina