Föstudagsfréttir

Haustdagur í Hrísey
Haustdagur í Hrísey

Tíminn líður og enn einn dýrðar föstudagurinn runninn upp.

Hrísey er eins og einkennisfuglinn þessa dagana. Sumarhamurinn er að verða horfinn en þó er vetrarhamurinn ekki alveg kominn. Rauðir, gulir, appelsínugulir og brúnir litir eru allsráðandi í náttúrinni hér í kringum okkur og útkoman er eins og gullfallegt málverk. 

Næturfrostið er mætt og fjallahringurinn sem umlykur okkur er með sístækkandi snjótoppa. Sum eru búin að taka til í geymslunni, finna skíðin og vaxið og bíða nú átekta eftir að snjórinn mæti svo hægt verði að skoða eyjuna á gönguskíðunum. En við erum nú ekki öll þar enn. Önnur eru að vinna í tækninni í frisbígolfinu, leita að horfnum frisbídiskum sumarsins milli fallinna laufa og vonast til að ná einum hring enn áður en völlurinn verður hvítur.

Ráðgjafar á vegum SSNE komu í heimsókn til Hríseyjar á mánudaginn og buðu upp á ráðgjöf í Hlein. Ánægjulegt var hversu mörg lögðu leið sína í Hlein að ræða málin og fá ráðgjöf og hugmyndir. Okkur skortir ekki dugnaðar- og hugmyndaríkt fólk hér í Hrísey. Uppbyggingasjóður er þessa dagana að auglýsa eftir umsóknum og hvetjum við einstaklinga, fyrirtæki og félög til þess að senda inn umsókn. Bæði er hægt að leita til Ásrúnar hjá Áfram Hrísey (afram@hrisey.is) og til ráðgjafa SSNE sem finna má hér.

Það hefur oft komið fram hér í föstudagsfréttum hversu magnaðan grunnskóla við höfum í Hríseyjarskóla. Starfsfólkið þar er að gera góða hluti og á alþjóðlegum degi kennara þann 5.október kom í ljós að Hrund Teitsdóttir, kennari í Hríseyjarskóla, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2023! Stendur meðal annars í tilnefningunni ,,Hrund er stórkostlegur leiðtogi, hvetjandi og drífandi kennari sem ber hag samfélagsins síns fyrir brjósti. Það skín í gegn að hún leitast alltaf við að vinna með styrkleika nemenda og er einstaklega útsjónarsöm við að finna nemendum farveg í námi sem hentar þeim og nýtir upplýsingatækni mikið í þeim tilgangi.". Hægt er að lesa um tilnefninguna hér. Við óskum Hrund innilega til hamingju með þá viðurkenningu sem í tilnefningunni felst!

Málþing Brothættra byggða var haldið á Raufarhöfn 5.oktbóber og fór Ásrún fyrir Áfram Hrísey verkefnið og hönd Hríseyjar til Raufarhafnar. Voru mörg áhugaverð erindi á þinginu og farið var yfir sögu verkefnisins og greint var frá niðurstöðum úttektar sem KPMG gerði fyrir Byggðastofnun á þeim verkefnum sem lokið hafa þáttöku í brothættum byggðum. Gaman er að segja frá því að Hríseyingar voru duglegir að taka þátt í könnunninni og var svarhlutfall okkar ansi hátt. Umræðuhringur var svo tekinn í lok málþingsins og óhætt er að segja að samhljómur hafi verið með þeim sem tóku þar til máls og niðurstöðu fyrrnefndar könnunar. Verkefninu þarf að fylgja eftir og verða hagsmunaaðilar og sveitarfélög að koma þar enn sterkar að. Málþinginu var streymt alveg fram að umræðuhring og hægt er að horfa á það hér. Í hádegishléi þurftu þau sem fylgdust með í streymi ekki að horfa á gesti borða, heldur voru sýndar klippur frá N4 frá ýmsum verkefnum í byggðarlögunum sem hafa verið í Brothættum byggðum. Þar á meðal innslag um Hríseyjarbúðina sem byrjar 02:06:21.

Bókamarkaður var haldinn á vegum Bókasafns Hríseyjar í Hríseyjarskóla í vikunni og var hann vel heppnaður. Mörg heimili urðu góðum bókum ríkari og bókasafnið létti aðeins á hillum en þyngdi veskið í staðinn. Skemmtilegur viðburður sem verður vonandi aftur síðar. 

Um helgina verður veður milt. Það ætti að hanga í þurru og hiti að vera milli 3-8 gráður í plús en þó detta niður í smá næturfrost í nótt. Það er því upplagt að fara í góðan göngutúr. Jafnvel kíka við hjá Sumarlands-ættingjum í kirkjugarðinum og huga að haustverkum þar með tiltekt og blómapotta-frágangi. Verbúðin er opin á laugardagskvöldinu fyrir þau sem vilja njóta þess að láta verta stjana við sig og Hríseyjarpizzur fara glóðvolgar út úr Hríseyjarbúðinni nú í kvöld.

   

Hrund Teitsdóttir, kennari.                 Hvönnin býr sig undir veturinn.         Lúpínan rígheldur í smá fjólubláan lit