Föstudagsfréttir

Spádómakertið er fyrsta kertið sem tendrað er á aðventukransinum
Spádómakertið er fyrsta kertið sem tendrað er á aðventukransinum

Næst komandi sunnudagur er fyrsti í aðventu. Hefur sú staðreynd haft áhrif á líf barnanna í Hrísey, en þau hafa verið að mæta á æfingar fyrir aðventustund sem verður í Hríseyjarkirkju á morgun, laugardaginn 26.nóvember klukkan 17:00. Við hvetjum öll sem geta til þess að mæta!

Síðustu helgi fóru fram afar vel heppnaðir og vel sóttir tónleikar Artic Óperu í Sæborg. Það er alltaf gaman að brjóta upp hversdaginn og við þökkum hópnum kærlega fyrir komuna og við vonumst til þess að þau komi aftur með tónleika út í Hrísey.

Helgin var að öðru leyti góð og fleiri nýttu tækifærið og skreyttu húsi, garða og umhverfið með fallegum jólaljósum. 

Mánudaginn 21.nóvember var málþing í Hríseyjarskóla um umhverfisvernd. Hríseyjarskóli tekur þátt í verkefni með Háskólanum á Akureyri og fleiri eyjaskólum í Hollandi, Skotlandi og Grikklandi. Var vel mætt á málþingið og lesa má frétt Hríseyjarskóla hér og frétt Akureyrarbæjar hér. Við erum stolt af skólanum okkar og þeim sem þar vinna, jafnt kennurum sem nemendum. Var haft orð á því hversu vel Hríseyjarskóli tæki í hugmyndir og verkefni sem Háskólinn kæmi með í eyjaverkefninu. Krakkarnir stóðu sig vel í að kynna verkefnið og sína aðild að því, ásamt því að taka þátt í málefnahópum.

Ásrún fór fyrir Áfram Hrísey suður í Hveragerði 22.-23.nóvember og sat þar fund með verkefnastjórum byggðaþróunarverkefna um land allt ásamt Byggðastofnun. Var sú ferð ákaflega fræðandi og skemmtileg og kom hún aftur heim með fullan bakpoka af hugmyndum og verkfærum til þess að nota í vinnu sinni. Var meðal annars  fræðsla um húsnæðisuppbyggingu, möguleika, styrki og úrræði sem í boði eru á landsbyggðunum. Þess utan var fróðlegt að ræða við aðra verkefnisstjóra í byggðaþróunarverkefnum, þar sem minni byggðarfélög um land allt virðast takast á við mjög svipaðar áskoranir.

Útboð á ferjumálum var í fréttum. Eins og kom fram í föstudagspósti 4.nóvember s.l. þá bókaði hverfisráð um málið og tók bæjarráð það fyrir. Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram og fengum við fregnir af því að fundur hafi verið haldinn. Ekki þótti aðilum innan Hríseyjar nóg um og ritað var bréf til þingmanna kjördæmisins og þeim sent í tölvupósti snemma dags 18.nóvember. Þegar viðbrögðin létu standa á sér var ákveðið að birta bréfið og deila á fjölmiðla. Lesa má bréfið hér á síðunni. Vegagerðin sendi svo frá sér fréttatilkynningu í morgun sem lesa má hér. Þar virðist nú reyndar gleymt að í útboðinu stendur möguleiki á 20% fjölgun eða fækkun ferða, þar sem eingungis er talað um fjölgun í tilkynningu þeirra. Ánægjulegt að sjá að mínusinn detti jafnvel út.

Um helgina er nóg um að vera. Eins og fram hefur komið er fyrsti í aðventu á sunnudaginn og því er helgileikur í Hríseyjarkirkju á morgun. Eftir aðventustundina verður kveikt á leiðalýsingu í kirkjugarðinum. Sunnudagur kemur svo með jólamarkað í Verbúðinni þar sem verður hægt að finna einhverjar fallegar jólagjafir, eða bara eitthvað handa sjálfum sér. Veður verður milt en mögulega blautt um helgina. Farið því varlega ef þið ætlið að dunda með jólaljósin úti við.