Föstudagsfréttir

Ánægja með mjólkurgraut Ferðamálafélagsins
Ánægja með mjólkurgraut Ferðamálafélagsins

Það eru bara fimm föstudagsfréttir til jóla eftir pistilinn í dag.

Vikan í Hrísey hefur verið góð. Enn er veðrið að fara mjúkum höndum um okkur þó breytilegt hitastig valdi því að göturnar séu hálar. Við biðjum ykkur um að fara varlega, nota broddana sem þá eiga og ganga eins hægt er á þeim hluta götunnar sem mest er borið á. 

Vel var mætt í mjólkurgraut Ferðamálafélagsins um síðustu helgi. Var setið í öllum sætum og potturinn tæmdur. Átti grautardagurinn stórafmæli þar sem þetta var í áttugusta skiptið sem íbúar og gestir setjast saman niður og snæða saman mjólkurgraut og slátur. Til hamingju með grautarafmælið Ferðamálafélag Hríseyjar og takk fyrir að standa fyrir þessum degi fyrir okkur!

Þróunarfélag Hríseyjar hélt íbúafund sama dag og var vel mætt. Unnur Inga, formaður ÞFH, setti fundinn og fór yfir störf og tilgang félagsins. Gaf hún svo Þresti, skipstjóra á Hríseyjarferjunni Sævari, orðið og tilkynnti hann viðstöddum að Vegagerðin hafi gefið það uppi við Andey ehf (rekstraraðila ferjunnar síðustu 6 ára) að Vegagerðin muni taka yfir rekstri Sævars um áramótin. Var starfsfólki Andeyjar þakkað kærlega fyrir sín störf fyrir samfélagið í Hrísey með lófaklappi. Næst fór Ásrún Ýr Gestsdóttir yfir störf og verkefni Áfram Hrísey verkefnisins, en hefur hún verið ötul í því að byggja upp sterkt tengslanet, afla upplýsinga og haldið málefnum Hríseyjar á lofti á öllum vígstöðum. Linda María Ásgeirsdóttir, formaður Ferðamálafélags Hríseyjar, fór yfir störf, viðburði og framtíð félagsins. Hefur Ferðamálafélagið í mörgu að snúast og næg verkefni eru í Hrísey í ferðamannaiðnaðinum. Kynnti hún fyrir gestum fundarins þá vöruþróunarvinnu sem unnið er að í dag sem er mjög spennandi. Hrísey er alltaf að verða vinsælli áningastaður fyrir bæði dagsferðir sem og lengri dvöl. Loks var það formaður hverfisráðs Hríseyjar, Ingólfur Sigfússon, sem kynnti störf ráðsins og helstu verkefni. Kom vel fram að verkefni ráðsins eru ótal mörg, fjölbreytt og mörg hver krefjandi. Gaman var að heyra af samvinnunni við starfsfólk Akureyrarbæjar og þann áhuga sem kemur þaðan fyrir uppbyggingu í Hrísey. Það er gott fyrir eyjuna að hafa öfluga einstaklinga sem vinna að málefnum Hríseyjar og við getum með sanni sagt að svo sé. Þróunarfélagið hefur fengið mikið hrós fyrir upplýsandi og góðan fund, þar sem mörg hver höfðu á orði að verið væri að gera svo miklu meira en þau hefðu gert sér grein fyrir hér í Hrísey. Mun fundargerð verða birt hér á síðunni síðar.

Í kjölfarið á tilkynningu Þrastar hefur Ásrún Ýr, hjá Áfram Hrísey, óskað eftir fundi með aðilum Vegagerðarinnar og einnig boðið þeim að koma til Hríseyjar og tala við íbúa svo öll séum við upplýst um gang mála. Tók fulltrúi Vegagerðarinnar vel í að koma norður og munum við auglýsa það hér ef af fundi verður. Fyrir rúmu ári síðan funduðu Ásrún og Ingólfur með fulltrúar frá Vegagerðinni þar sem þau voru fullvissuð um að íbúar yrðu vel upplýstir um gang mála. Eitthvað hefur það misfarist en við vonum að upplýsingaflæðið verði nú í betri farveg með þeirra komu til Hríseyjar.

Það var ekkert sæti laust á jólabjórsmakki Gunnu og Hönnu á Verbúðinni á laugardagskvöldinu. Höfðu þær vinkonur lagst í mikla rannsóknavinnu og báru fram veitingar með hverjum jólabjór sem hver og ein passaði fullkomlega við þann bjór sem var smakkað á. Við lok kvöldsins voru það Jóla Kaldi og Föroya Jóla Bryggj sem fóru með sigur af hólmi í stigagjöfinni. 

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur af Hríseyjarskóla. Bauð skólinn og starfsfólkið Hríseyingum á skemmtidagskrá í Íþróttahúsinu þar sem leikskóladeild söng með yngri deild grunnskólans sungu saman Buxur, vesti, brók og skó eftir Jónas Hallgrímsson, og fékk salinn til að taka undir í viðlaginu. Næst las miðdeildin nokkur ljóð og að lokum kynntu elstu bekkirnir skólastarfið fyrir gestum. Eftir dagskrána á sviðinu var boðið upp á graskerssúpu og stafasúpu með nýbökuðu ostabrauði. Í lokin var svo borið fram kaffi og skúffukaka sem krakkarnir höfðu bakað fyrr um morguninn. Var þetta mjög skemmtileg stund sem Hríseyjarskóli bauð upp á.

Engin formleg dagskrá er núna um helgina svo fréttaritari best veit. Hríseyjarpizzur eru á sínum stað í kvöld og íþróttir fyrir fullorðna á sunnudaginn. Verbúðin 66 er í vetrarfríi til 9.desember og lokað þar á meðan. Þó að húsnæðið sé lokað þá er tekið á móti bókunum á jólahlaðborð og aðra viðburði svo vertarnir slappi nú ekki um of af í fríinu.

Aðventan nálgast og með henni smáköku og mandarínuilmurinn, jólalögin og jólaljósin. Mörg hús eru komin í hátíðarbúninginn og er afskaplega hlýlegt að sjá hér í þorpinu. Viðburðadagatalið er að verða jólalegra þar sem ýmsar uppákomur og gleði er að bætast þar inn yfir aðventuna, jól og áramót. Það er því gott að fylgjast vel með hér á hrisey.is, bæði fréttum og viðburðum. 

Þróunarfélag Hríseyjar er komið í jólagírinn og ætlar að endurvekja hin skemmtulegu jólaskreytingarverðlaun! Það er því um að gera að nýta helgina og sæmilega veðurspá til þess að klifra upp í stiga og skreyta húsið hátt og lágt!

Enn dansar hitastigið limbó um helgina. Hitinn getur farið upp í tvær gráður í plús og niður í tvær gráður í mínus. Við getum ekki ítrekað nógu oft að fara þurfi varlega hér á götunum, broddar eru snilldar uppfining sem ætti að vera til á hverju heimili. Sólinn gæti látið sjá sig á laugardeginum en við getum líka átt von á smá úrkomu þegar líður á daginn. Vindur verður um 4 m/s. Sumarjakkar ættu að vera komnir lengst inn í skáp eða geymslu, húfan og úlpan eru okkar bestu vinir. Sundlaugin er opin um helgina og upplagt að taka smá slökun í heitum pottinum eftir göngutúrinn.

                  

Leikskóladeils og yngri deild grunnskólans sungu     Johan Jörundur ánægður með grautinn hjá Lindu            Unnur Inga fer yfir störf og verkefni ÞFH