Föstudagsfréttir

Gleðileg jól
Gleðileg jól

Það er kominn föstudagurinn 22.desember og daginn fer nú að lengja.

Eru þetta síðustu föstudagsfréttirnar á árinu 2023 og þakkar fréttaritari fyrir lesturinn, ábendingarnar og myndirnar sem komið hafa í hús á árinu. Ég hlakka til að færa ykkur fréttir frá Hrísey á nýju ári. 

Jólahátíðin hefst nú um helgina eftir dásamlega aðventu hér í Hrísey. Börnin í Hríseyjarskóla héldu litlu jólin sín í gær og eru nú komin í verðskuldað jólafrí. Á sama tíma kom jólasnjórinn sem sveipar eyjuna okkar jólablæ og sér til þess að börnin hafi gott sleðafæri í fríinu. Við biðjum vegfarendur, bæði akandi og gangandi, að hafa augun vel opin því brekkurnar freista og oft erfitt að stoppa þegar sleðar og þotur eru komin á fulla ferð. 

Um síðustu helgi var skemmtilegt spilakvöld á Verbúðinni þar sem eyjaskeggjar spiluðu og hlógu saman langt fram eftir kvöldi. Það er nóg um að vera á Verbúðinni yfir jólin þar sem hamborgarakvöld, Pub quiz fyrir yngri kynslóðina og annað fyrir eldri kynslóðina verða haldin. Annað kvöld er skötuhlaðborð og tekið er við pöntunum á það til hádegis í dag. 

Ungmennafélagið Narfi er með jóladagskrá sem hefst á samningaviðræðum við þrettán bræður um útburð á jólapósti. Skilst mér á Hrund, formanni Narfa, að samningaviðræður séu á lokastigum og því að verða frágengið að nokkrir af jólasveinabræðrum komi til Hríseyjar að bera út jólapóstinn sem Ungmennafélagið tekur á móti í Hríseyjarbúðinni til kl.16:00 á Þorláksmessu. Mun pósturinn vera borinn út eftir það. Að venju verður dagatal UMF Narfa til sölu og verður bæði gengið í hús að selja sem og hægt að nálgast eintak í Hríseyjarbúðinni. Dagatalið er skreytt með fallegum myndum úr Hrísey og kostar það 3.000 kr. Að lokum verður jólatrésskemmtunin á sínum stað á annan í jólum í Íþróttamiðstöðinni. Hefst hún klukkan 14:00 og að dansi og söng loknum verður vöfflukaffi. Ekkert fast gjald er fyrir skemmtunina en félagið tekur á móti frjálsum framlögum. Það hefur oft komið fram í föstudagsfréttum hversu flott starf ungmennafélagið okkar er með hérna í eyjunni og við hvetjum öll sem geta til þess að styrkja við félagið með jólapósti, kaupum á dagatali og framlagi við jólatrésskemmtunina. Í byrjun viku tók fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrar fyrir erindi þar sem ráðið samþykkti fyrir sitt leyti reglur um akstursstyrk vegna íþrótta og tómstundastarfs barna og unglinga sem búa í Hrísey ( hér má lesa fundargerð ráðsins). Hefur stjórn UMFN verið að vinna í þessum styrk á árinu í samvinnu við Akureyrarbæ. Áfram Narfi!

Íþróttamiðstöðin er lokuð 23.-26.desember og aftur 31.desember og 1.janúar. Opið er dagana á milli á hefðbundnum tíma. Við hvetjum ykkur til þess að kíkja á hrisey.is til þess að finna alla opnunartíma yfir hátíðirnar sem og á Facebook síðum. 

Hríseyjarbúðin er oft miðpunktur eyjarinnar. Þar verslum við inn fyrir heimilið, setjumst niður og fáum okkur kaffi, spjöllum við náungann og komum saman. Á Þorláksmessu verður jólakaffi milli 14 og 17, eða á meðan birgðir endast. Það er því upplagt að kíkja í búðina með jólapóstinn og ná sér í kaffisopa í leiðinni. 

Hátíðarmessa verður í Hríseyjarkirkju á jóladag klukkan 14:15. Sr. Oddur Bjarni þjónar og sr. Magnús bregður sér í hlutverk organista. Stundirnar í kirkjunni okkar eru alltaf fallegar en það er eitthvað við jólamessur í Hríseyjarkirkjur sem kallar fram enn meiri töfra í eyjuna. 

Vinna við göngustíginn niðri á svæði hefur gengið vel þó veðrið hafi snúist ögn gegn verktökunum. Við munum geta spásserað yfir svæðið án þess að verða moldarbrún í rigningunni næsta sumar (ekki að við gerum ráð fyrir vætusömu sumri, en allur er varinn góður!).

Eftir frábæra tilraun í fyrra var ákveðið að halda aftur áramótapartý í Sæborg á gamlárskvöldi. Það er aldurstakmark inn í húsið og miðað við afmælisdag. Ekkert gjald er formlega en þúsund krónu framlag í uppbyggingu á Sæborg er vel þegið. Lofar partýnefndin miklu stuði og við á hrisey.is efumst ekki um að svo verði!

Á morgun er Þorláksmessa. Það verður án efa skata á fleiri borðum en Verbúðinni og gera má ráð fyrir skötuilm yfir þorpinu öllu. Jólasveinarnir banka upp á og skemmta börnum og fullorðnum í smá tíma, passlega á meðan hamsarnir hitna. Annað kvöld fara spennt börn að sofa og, vonandi ekki um of, þreyttir foreldrar klára síðustu handtökin fyrir sjálfan aðfangadag. 

Fyrir hönd Þróunarfélags Hríseyjar og Áfram Hrísey sendum við ykkur öllum okkar bestu óskir um gleði og frið um jólin og farsæld á komandi ári.

Unnur Inga og Ásrún Ýr

         

               Unnið að göngustíg                                           Dansað í kringum jólatré á litlu jólum                               Jólasveinarnir komu færandi hendi