Föstudagsfréttir

Litirnir á himninum hafa verið stórkostlegir í byrjun árs
Litirnir á himninum hafa verið stórkostlegir í byrjun árs

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur! Fyrstu föstudagsfréttir ársins 2024 eru komnar í hús og það verður tveggja bolla lestur!

Þó tæpar þrjár vikur eru liðnar frá byrjun jóla og flest búin að heyra allar fréttir og sögur síðustu þriggja vikna, þá ætlum við nú samt að stikla á stóru yfir síðustu vikurnar.

Jól og áramót í Hrísey

Hátíðirnar voru góðar í Hrísey. Það voru mörg sem völdu að eyða hátíðunum í eyjunni og ljós voru í nánast öllum húsum. Á Þorláksmessu bauð Hríseyjarbúðin upp á Þorláksmessukaffi sem var vel sótt og síðar þann daginn sáust fjórir af þrettán rauð klædum bræðrum hlaupa á milli húsa að dreifa jólakortum. Komu þeir bræður mörgum til að hlægja, flestum til að brosa, sumum til að syngja og bara örfáa tókst þeim að hræða. Bræðurnir kunnu nú ekki við að trufla Þorláksmessuskötuna í Verbúðinni en tóku lagið fyrir alla sem í Hríseyjarbúðinni voru stödd. Skötuilmur sveif yfir þorpinu, við mismikla kátínu yngstu kynslóðarinnar. Aðfangadagur bauð upp á logn á hraðferð og voru mörg fegin því að snjórinn í kirkjugarðinum var nægur til að útbúa skjól fyrir friðarkertin sem þar voru tendruð við mörg leiði. Ilmurinn í þorpinu var heldur betri en deginum áður þar sem allskyns hátíðarmatur var útbúinn af ást og umhyggju í húsunum í Hrísey. Hátíðarmessa var haldin á jóladag og er það alltaf jafn falleg og hátíðleg stund. Annan í jólum var Ungmennafélagið Narfi með sitt árlega jólaball og vöfflukaffi. Var frábær mæting og margir hringir farnir í kringum jólatréið þar sem Ingólfur og Heimir Sigurpáll spiluðu undir dansi og söng. Vöfflurnar runnu ljúflega niður í mannskapinn og tveir jólasveinabræður mættu með gúmmelaði handa börnunum. Á jólaballinu var kynnt hvaða hús hafi sigrað í jólaljósakeppni Þróunarfélagsins. Dómnefndin var skipuð fulltrúum frá félögum í Þróunarfélaginu og gestadómara. Var farinn góður rúntur um alla eyjuna að dást að dásamelga fallegum og fjölbreyttum skreytingum. Erfitt var að gera upp á milli en að lokum sammældist dómnefndin að útnefna Austurveg 11 sem jólahús Hríseyjar 2023! Á gamlársdag fjölmenntu eyjaskeggjar og gestir niður á ferjubryggju þegar Hríseyjarferjan Sævar kom heim úr sinni síðustu siglingu undir merkjum Andeyjar. Silgdi ferjan inn í höfnina undir flugeldum og á bryggjunni stóð fólk og klappaði og bílar þeyttu lúðra sína. Var þetta leið Hríseyinga til þess að þakka Andey ehf fyrir sín störf og þjónustu síðustu sex árin, en núna um áramótin tók Vegagerðin við rekstrinum á Sævari undir merkjum Almenningssamgangna ehf. Síðar um kvöldið kom fólk enn saman og í þetta sinn til þess að vera við áramótabrennuna sem kveikt var í klukkan 21:00. Björgunarsveit Hríseyjar sá um að undirbúa og kveikja í glæsilegri flugeldasýningu sem var í boði Björgunarsveitarinnar, fyrirtæka og félagasamtaka í Hrísey. Við erum rík af fólki sem vill vinna fyrir samfélagið og láta hlutina ganga upp. Litlu munaði að engin brenna yrði en með snöggum viðbrögðum nokkurra einstaklinga og fyrirtækja var því kippt í liðinn svo við fengum bæði brennu og sýningu! 

Það voru tímamót í Hríseyjarkirkju í Hátíðarmessunni þegar þeim Árna Kristinssyni og Sigríði Magnúsdóttur var þakkað fyrir störf sín Hríseyjarkirkju, en létu þau bæði af störfum sínum þar núna um áramótin. Narfi Björgvinsson, formaður sóknarnefndar, hélt tölu og leysti þau út með gjöfum. Árni gat ekki verið viðstaddur svo Eygló, eiginkona hans, tók við konfektkassanum fyrir hans hönd. Það eru ótal störfin sem enginn sér en eru unnin, bæði í kirkjunni og hér í Hrísey almennt. Við eigum það til að gleyma hversu margar hendur eru með ósýnileg verk í fallega litla samfélaginu okkar. Hér gerist ekkert að sjálfu sér heldur erum það við sem göngum í verkin og gerum Hrísey að því sem hún er.

Hríseyjarskóli fór aftur af stað 4.janúar og voru bæði börn og foreldrar ánægð með að fá rútínuna aftur eftir gott jólafrí. Það var hinsvegar gamall gestur sem bankaði óvænt upp á og tók yfir starfsfólk skólans. Já, Covid mætti og stríddi meirihluta starfsfólks og nokkrum börnum. Skólahald féll niður einn dag svo starfsfólk gæti náð heilsu og fannst mörgum krökkum ágætt að fá svona smá aðlögun aftur í skólastarfið með styttri vinnuviku svona í janúar. 

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti fyrir sitt leyti reglur um akstursstyrk vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga búsettra í Hrísey og vísaði þeim til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Hægt er að lesa fundargerð bæjarráðs hér. Annað mál tengt Hrísey var tekið fyrir hjá skipulagsráði í vikunni og var þar samþykkt breyting á deiliskipulagi lóða við Austurveg 15, 17, 19 og 21 í Hrísey. Í breytingunni felst að á lóðum 15 og 17 verður heimilt að byggja tveggja hæða parhús-/fjórbýlishús og á lóðum 19 og 21 verði heimilt að byggja 2 hæða einbýlishús. Hægt er að lesa fundargerð skipulagsráðs hér. 

Íslenskunámskeið frá Símey verður aftur haldið í Hrísey og er það Claudia Werdecker sem mun kenna það. Kennt verður tvisvar í viku í Hlein og hægt að lesa og skrá sig hér.

Þorrablót 2024! Þorrablót Hríseyjar verður haldið þann 3.febrúar næstkomandi og er skráning hafin. Blótið verður haldið í íþróttahúsinu þar sem trogin svigna undan þorramatnum, nefndin sér um skemmtiatriðin og hljómsveitin Súlur lýkur kvöldinu með dansleik. Hægt er að skoða viðburðinn á Facebook.

Föstudagspizzur í Hríseyjarbúðinni eru á sínum stað í kvöld og Verbúðin 66 er opin á laugardaginn. Skráning á bóndadags-kótilettukvöld Verbúðarinnar er hafin. Upplagt að bjóða bóndanum, eða sjálfum sér, út að borða í byrjun þorra!

Eftir hlýindi síðustu daga ætlar veturinn að minna okkur á að það er nú janúar núna um helgina. Hiti verður í -4 á laugardaginn og kaldar á sunnudag. Snjórinn mætir að öllum líkindum seinnipart laugardags og á sunnudaginn og vindur um 4m/s. Litadýrðin á himninum hefur verið alveg stórkostleg síðustu dagana og náttúran heldur betur minnt okkur á hversu heppin við erum með útsýnið hérna í Hrísey. Það er því upplagt að fara í göngutúr við sólarupprás og sólarlag á meðan veðrið sæmilegt.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá þeim viðburðum sem sagt hefur verið frá. Einnig koma myndir inn á samfélagsmiðlana okkar Facebook og Instagram. Endilega "taggið" okkur á myndir og pósta!