Föstudagsfréttir

Kvenfélag Hríseyjar brá sér í leik á degi kvenfélagskvenna
Kvenfélag Hríseyjar brá sér í leik á degi kvenfélagskvenna

Það er þessi föstudagur. Föstudagurinn þegar maður finnur spenninginn stigmagnast með hverjum klukkutímanum og það sést blik í augum eyjaskeggja. Það er föstudagurinn fyrir þorrablót!

Samræður vikunnar hafa að mestu leyti hljómað á þessa leið; Ert þú ekki búin að kaupa miða á blótið? Hverjir af þínu fólki ætla að mæta? Hva, það verður ekkert að veðri, segðu þeim bara að koma!

Já hér er lítið um annað rætt, nema þá helst veðrið, færðina á landinu og aksturslag á höfuðborgarsvæðinu. 

Fimmtudaginn 1.febrúar var dagur kvenfélagskonunnar og í tilefni dagsins hittust 16 konur úr Kvenfélagi Hríseyjar á Verbúðinni 66, fóru í skemmtilega leiki og fengu frábæran mat. Þessi hópur á sannarlega sinn eigin dag skilið þar sem þær eru ötular að styðja við samfélagið hérna í Hrísey, bæði með gjöfum og halda uppi viðburðum. Til hamingju með daginn kvenfélagskonur í Hrísey og um allt land!

Norðurorka veitir árlega samfélagsstyrki og í ár kom einn styrkur til Hríseyjar. Vilhelm Björnsson hlaut styrk til þess að setja upp ljósmyndasýningu í Hrísey, þar sem ágóði sýningarinnar mun renna til samfélagsins. Eru þetta alveg frábærar fréttir og við óskum Villa innilega til hamingju og hlökkum til að fjölmenna á sýningu!

Ungmennafélagið Narfi gefur öllum Hríseyingum endurskinsmerki í tilefni 60 ára afmælis félagsins 23.febrúar nk. Eru þetta endurskinsarmbönd með merki félagsins og hægt er að fá þau afhent við búðarkassan í Hríseyjarbúðinni. Við munum sjást vel á göngunni með þessi flottu endurskinsarmbönd. 

Hríseyjarbúðin er farin að undirbúa komu hátíðisdagana bollu-sprengi- og öskudag. Þorramaturinn er smá saman að klárst en í stað eru mættar baunir og Royal búðingar. Villl starfsfólk búðarinnar minna fyrirtækin á að pantanir fyrir öskudagsnammið þurfa að berast í síðasta lagi þriðjudaginn 6.febrúar. Sá siður er enn við ríki í Hrísey að börnin slái köttinn úr tunninni og gangi að því loknu í fyrirtæki þar sem þau syngja fyrir nammi, og svo í öll hús að syngja fyrir pening sem rennur til nemendaráðs Hríseyjarskóla. 

Þorrablótsnefndin hefur verið á þeytingi um eyjuna og í landi við undirbúning. Skemmtilegar auglýsingar hafa birst á Facebook og óhætt að segja að húmorinn sé nú alveg nokkurn veginn í lagi hjá þeim svo von er á góðu! Blótið sjálft er svo, eins og svo oft hefur komið fram, núna á laugardaginn og húsið opnar klukkan 19:00. Miðasala gekk vel og heyrst hefur að enn er fólk að hafa samband að athuga hvort möguleiki sé á að komast yfir miða. Þorrablót Hríseyjar er viðburður opinn öllum og það hefur verið gaman að sjá fleiri mæta sem kannski vita að þau fatti ekki alveg öll skemmtiatriðin eða húmorinn í lögum eins og Brosandi ferjumenn. Það skiptir nefninlega ekki öllu máli að fatta skotin sem dynja yfir það fólk sem lét á sér bera (eða ekki) í eyjunni. Stemningin í salnum og gleðin sem skín af öllum er smitandi svo öll geta skemmt sér og hlegið með okkur. Það mæta brottfluttir, orlofshúsaeigendur, ættingar, vinir og kunningjar og öll gleðjumst við eins og ein stór Hríseyjar-fjölskylda. Það sem fréttaritara hlakkar til og vonandi ykkur öllum!

Það er þó ekki bara þorrablót á dagskrá. Heldur betur ekki. Í kvöld er hægt að mæta á upphitun á Verbúðinni, panta sér pizzur í Hríseyjarbúðinni og taka á móti öllum þeim sem flykkjast í eyjuna í dag. Á morgun, laugardag, hefjum við leika í þorragraut í Hlein í boði Ferðamálafélags Hríseyjar þar sem við byrjum gleðina. Síðan er haldið niður í Hríseyjarbúðina þar sem kökubasar foreldrafélags Hríseyjar verður haldinn með pompi og prakt! Hríseyskir foreldrar standa sveitt við baksturinn í dag og í fyrramálið svo við getum öll fengið okkur eitthvað sætt með kaffinu eftir sund og pottaspjall í Íþróttamiðstöðinni. Þegar síðasti kökubitinn fer niður er  byrjað að draga fram straujárnið, skyrturnar, kjólana og "meiköppið". Því næst er það blót.

Veðrið um helgina.... Skítt með það. Veðrið er ekki að fara að stoppa okkur og stundum bara best að vita ekkert svo maður stressi sig ekki að óþörfu. Spáð er gleði, hlátursrokum, hákarli með sæmilegri andfýlu og gríðarlegri stemningu!

Hér má sjá gamalt myndband frá eldri blótum njótið Þorrablót í Hrísey

Góða skemmtun kæru Hríseyingar og gestir. Þessi helgi fer í sögubækurnar!