Föstudagsfréttir

Arnór Breki Guðmundsson saxar súkkulaði fyrir fjáröflunarbakstur Draums
Arnór Breki Guðmundsson saxar súkkulaði fyrir fjáröflunarbakstur Draums

Föstudagsfréttir úr fannferginu í Hrísey!

Það er fátt sem minnir á vorkomu ef maður horfir bara rétt út um gluggann þessa dagana. Snjó kyngir enn niður og ruðningarnir við sumar göturnar mannhæðaháir. Veðrið hefur nú líka verið fallegt og þegar maður gengur um eyjuna má heyra í vorinu. Tjaldurinn er mættur í Hrísey, lundinn er í Grímsey og lóan er án efa á leiðinni. Sumir telja að við höfum fengið páska-, Sæmundar- og kaupfélagshretið í einum vænum pakka í ár.

Það er ekki mikið að frétta úr eyjunni þessa vikuna. Að minnsta kosti hefur engu verið hvíslað að fréttaritara. Hríseyjarskóli hefur auglýst eftir umsjónarkennara á yngri deild og hafa margir lesendur verið öflug að deila auglýsingu þess efnis. Við vonum að það skili árangri og að krakkarnir okkar fái áfram úrvals kennslu næsta vetur. Fyrir áhugasöm þá má sækja um hér.

Akureyrarbær sendi frá sér fréttatilkynningu um breytingar á flokkun sorps. Við í Hrísey þurfum lítið að spá í því þar sem breytingarnar eiga ekki við okkur sem þegar erum með grenndargáma og löngu komin með meistaragráðu í flokkun. 

Vegagerðin lét vita af því að Sævar væri á leið í slipp inn á Akureyri þann 22.apríl og að Konsúll myndi leysa hana af. Áætlað er að hún verði frá í 2-3 vikur.

Unglingarnir í félagsmiðstöðinni Draum gerðust bakarar á fimmtudeginum þegar þau bökuðu rúmlega 200 súkkulaðibitakökur og seldu. Eru þau í fjáröflun fyrir ferð sem er áætluð í maí. Krakkarnir hér í Hrísey eru kannski ekki mjög mörg, en þau eru ótrúlega öflug og dugleg! Krakkarnir og félagsmiðstöðin þakka kærlega öllum þeim sem keyptu poka af súkkulaðibitakökum af þeim!

Heilsuráð Hríseyjarskóla sendi frá sér góða áminningu fyrir helgina á Facebooksíðu sinni, þar sem þau hvetja okkur öll til þess að velja hollan mat og hollt snakk. Endilega kíkið á síðuna þeirra og smellið á "like" hnappinn!

Helsti gönguskíðabrautamaðurinn (létt og gott heimatilbúið orð) í eyjunni brá sér af bæ svo ekki er nýtroðnar slóðir í dag, föstudag. En það er aldrei að vita hvað verður gert um helgina svo það borgar sig að fylgjast með Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar en þar setja þau inn kort af nýtroðnum slóðum.

Talandi um helgina þá, samkvæmt þremur veðursíðum teknar saman í eina mjög ófagmannlega veðurspá, verður laugardagurinn fremur kaldur (-4°C), skýjaður en lítill vindur um 3m/s. Sunnudagur veður að öllum líkindum sólarmegin í lífinu, hiti um frostmark og sunnanátt.

Við mælum með stígvélum og brosinu í göngutúrum helgarinnar. Heitur pottur á eftir og spjall við nágungann hljómar eins og fullkomin helgi í Hrísey!

 

Það hefur verið mikið að gera við að moka göturnar í eyjunni og ruðningarnir orðnir ansi háir.