Föstudagsfréttir

Árshátíð Hríseyjarskóla verður haldin á laugardaginn
Árshátíð Hríseyjarskóla verður haldin á laugardaginn

Það er komið að skuldardögum þennan fallega föstudag í Hrísey. Ég skulda tveggja vikna skammt af fréttum!

Enn má sjá snjó í Hrísey og eru gönguleiðirnar ekki allar orðnar alveg færar fyrir sumarstrigaskó. Sólin og hækkandi hitastig eru þó að vinna á þessu smá saman og auðveldara að verða fyrir fuglana að finna sér hreiðursstað og maka. Krían er komin til Grímseyjar en fréttaritari hefur ekki fengið orð eða staðfestingu um komu hennar til okkar í Hrísey. Það má endilega koma því til okkar ef hún hefur sést og enn betra fylgi mynd! Hinsvegar náði fréttaritari mynd af fuglategund sem ekki sést oft í eyjunni. Það var dúfa mætt í garðinn að leita sér að æti! Var hún merkt á fæti og hvarf jafn snögglega og hún birtist. Vonandi að hún hafi ratað aftur heim.

Ferjan er komin aftur heim og eflaust mörg sem gleðjast yfir því. Við erum alltaf jafn fegin þegar Sævar kemur aftur því aðgengi, flutningur á vörum og loftgæði eru í allt öðrum gæðaflokk í Hríseyjarferjunni heldur en staðgenglinum. Það er nú samt gott að við höfum aðgengi að bát til notkunar þegar ferjan fer í slipp og hreinlega prýðilegt að vera fljótur heim þegar komið er með síðustu til baka. Allt hefur sína kosti og galla.

Glöggir hafa tekið eftir nýrri byggingu við sundlaugina. Er þar mættur saunaklefi sem hverfisráð sá til að kæmi. Er saunan glæsileg að sjá en við bíðum aðeins eftir því að geta prófað hana þó skelin sé komin. Ekki nóg með að við séum að fá saunuklefa heldur sáust umbúðir utan af infarauðrisaunu á bryggjunni á Árskógssandi á leið sinni til Hríseyjar! Það er heldur betur uppbygging og aukning í þjónustu og afþreyingu hérna hjá okkur! Svo ef við ofhitnum í sauna þá er kominn nýr frystir undir kúluísinn í Hríseyjarbúðinni og hefur nýji frystirinn pláss fyrir fleiri bragðtegundir en sá gamli! Já það er margt að gleðjast yfir hérna í Hrísey.

Sumir eyjaskeggjar hafi orðið varir við furðulegar fígúrur í skrautlegum klæðnaði á hlaupum milli húsa. Engar áhyggjur. Þetta eru bara nemendur í Hríseyjarskóla sem hafa laumast í búningunum sínum úr íþróttahúsinu þar sem fullur undirbúningur er fyrir árshátíð Hríseyjarskóla. Verður árshátíðin haldin með pompi og prakt núna á laugardaginn klukkan 14:00 og hvetjum við auðvitað öll til þess að mæta! Krakkanir setja upp Mjallhvíti og dvergana sjö í leikstjórn Lindur Maríu Ásgeirsdóttur og hafa þau lagt mikla vinnu í allan undirbúning. Eftir leiksýningu er kaffihlaðborðið á sínum stað og við vitum öll að það svíkur engann! Skólablaðið Hrís er komið úr prentun og verður hægt að fjárfesta í eintaki á laugardaginn en allt efni er eftir nemendur eins og hefð er fyrir. Það er því góð helgi framundan hér í Hrísey!

Verbúðin 66 er opin á laugardaginn og er því upplagt að þrífa eldhúsið í dag. Það er nefninlega svo þægilegt að panta pizzu í Hríseyjarbúðinni í kvöld, mæta á kaffihlaðborð á morgun og láta svo Verbúðina um kvöldmatinn annað kvöld og þurfa ekkert að óhreinka eldhúsið sitt.

Framkvæmdir eru áætlaðar í Hríseyjarskóla í sumar og vegna þeirra verður að loka bókasafninu í sumar. Síðasti opnunardagurinn er næsta þriðjudag (14.maí) og boðið verður upp á kaffi, djús og bakkelsi fyrir þau sem mæta og næla sér í lesefni fyrir sumarið.

Enn geta ungmennin sótt um starf í Vinnuskólanum en hægt er að finna rétt umsóknarform hér.

Áfram Hrísey verkefnið setti sig í samband við nokkur leigufélög og rökstuddi þörf á leiguhúsnæði í Hrísey og kostum þess að fjárfesta í einhverjum þeirra fasteigna sem eru á sölu í eyjunni. Því miður virðast ekki allir sjá þau frábæru tækifæri sem við höfum hérna í Hrísey og eftir samtöl í síma og tölvupóstum, mislöngum og misgóðum, hafði ekkert af þeim félögum sem rætt var við áhuga á uppbyggingu í Hrísey. Við gefumst nú ekki auðveldlega upp og er verkefnastýra handviss um að þeir aðilar sem ekki sjá tækifærin í dag munu naga sig í handabökin seinna meir.

Með komu sumar er það ekki bara gras og fuglar sem lifna við heldur samfélagið allt. Meiri nýting er á húsnæði, fleiri sjást á ferli og svo er farið að styttast í allar þær frábæru hátíðir sem haldnar eru í Hrísey. Viðburðardagatalið hér á síðunni er lifandi og þangað setjum við allt sem við fáum fréttir af að standi til. Þannig það borgar sig að fylgjast vel með!

Verkefninu Áfram Hrísey líkur fljótlega en föstudagsfréttir hafa verið liður af því verkefni. Þessir litlu fréttapistlar hafa þótt ganga vel og vilji er til þess að halda þeim áfram þó verkefninu ljúki. Hinsvegar væri þá æskilegt að fá fleiri til þess að rita föstudagsfréttir áfram í sjálboðavinnu. Ef við erum nokkur um þá gæti kannski hver skrifað eina frétt á 4-6 vikna fresti. Hver myndi setja sinn brag á sína pistla og hægt er að koma fram sem "fréttaritari" eða undir nafni. Þá koma kannski líka aflafréttir inn í einhverja pistlana... Ef þú hefur áhuga á að taka þátt þá máttu endilega heyra í Ásrúnu (fréttaritara) í síma 866-7786 eða á netfagið afram@hrisey.is

Helgin verður okkur ágæt veðurfarslega séð. Ekki of góð þannig við fáum ekki veðurviskubit þegar við sitjum inni og njótum Árshátíðar Hríseyjarskóla, en ekki léleg heldur. Laugardagurinn býður okkur upp á tveggja stafa hitatölu, eða um 10 gráður, sól, smá ský og léttri golu. Sunnudagur er ögn kaldari eða hiti um 7 stig, skýjað að mestu og ögn meiri ferð á golunni.

Við vonum að þið eigið góða helgi og við sjáumst á morgun á árshátíð Hríseyjarskóla!