Föstudagsfréttir

Ingólfur og Klas prófa nýja slökkvibúnaðinn
Ingólfur og Klas prófa nýja slökkvibúnaðinn

Það er sannarlega margt að frétta það sem af er ári. Fyrst ber að nefna nýja slökkvibílinn sem kom í vikunni. Er mikill happafengur að hafa fengið hann þó við vonum að það komi ekki til þess að notkun verði mikil. Vakti það mikla athygli þegar bíllinn kom og fjallað var um málið hjá Vikublaðinu, Akureyri.net og Síðdegisútvarpi Rásar2 (byrjar 01:02) og auðvitað hér á hrisey.is.

Leikskólinn bauð Hríseyingum í vöfflukaffi á degi leikskólans 6.febrúar. Vöfflurnar voru ljúffengar og krakkarnir sungu svo skemmtilega fyrir gesti.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tók fyrir og samþykkti beiðni frá Áfram Hrísey verkefninu um breytingu á tveimur húsnæðislóðum úr einbýlishúsalóðir í fjölbýlishúsalóðir. Einnig var samþykkt að fara í frekari lóða og skipulagsbreytingar, lesa má fundargerð skipulagsráðs hér.

Mál málanna er þó komandi helgi. Í kvöld verður opið á Verbúðinni 66 sem er góð upphitun fyrir laugardaginn. Í hádeginu á morgun býður Ferðamálafélagið í mjólkurgraut og slátur í Hlein klukkan 12:00. Foreldrafélag Hríseyjarskóla er svo með kökubasar í Hríseyjarbúðinni frá klukkan 13;00 og við hvetjum fólk til þess að gefa hrærivélinni frí og versla bakkelsi þar. Síðan verða Slökkviliðið og Björgunarsveitin með opin hús í tilefni 11.2 dagsins. Gefst gestum tækifæri á að skoða nýja búnaðinn og ef veður leyfir verður hægt að fá að æfa sig að slökkva eld!

Rúsínan í pylsuendanum er svo Þorrablót Hríseyjar á laugardagskvöldi! Hefur nefndin haft nokkur ár til undirbúnings svo von er á hörku blóti. Húsið opnar 19:30 og matur hefst klukkan 20:00. Hljómsveitin Súlur mun leika fyrir dansi svo núna er bara að strauja skyrtuna, pússa skóna, grafa upp varalitinn og skella sér á blót!

Eldri deildin í Hríseyjarskóla fer svo á stjá á sunnudeginum að safna flöskum í Hollands-ferðasjóðinn. Hægt verður að setja pokana út fyrir ef ekki er útlit fyrir að verið sé heima milli 15 og 17.

Veðrið er eitthvað aðeins að stríða okkur með fagur gulum og appelsínugulum veðurviðvörunum. En við látum það ekki á okkur fá, festum lausamuni, göngum hönd í hönd á blót til að fjúka ekki og skemmtum okkur fallega.

 

                         

Ingólfur og Klas fengu smá froðu yfir sig á æfingu         Krakkarnir á leikskólanum sungu fyrir gesti.