Gatnagerðargjöld lækkuð í Hrísey

Hverfisráð Hríseyjar sendi fyrirspurn til skipulagsráðs Akureyrarbæjar um niðurfellingu gatnagerðargjalda, eins og gert hefur verið í nærliggjandi byggðarkjörnum með góðum árangri.

Skipulagsráð lagði til að í stað þess að fella gjöld alveg niður yrði veittur 75% afsláttur af gatnagerðargjöldum og samþykkti bæjarráð það á fundi sínum í vikunni. Afsláttur þessi mun standa út árið 2024 og nú vonum við að einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki sjái tækifærin sem fylgja því að byggja sér heimili og atvinnu í Hrísey.

Auk þess mun skipulagssvið Akureyrarbæjar fara í breytingar á skipulagi lóða í Miðbraut og fjölga þannig lóðaframboði í þorpinu. 

Hverfisráð á þakkir skilið fyrir sitt framlag í að ýta undir uppbyggingu í eyjunni og við hvetjum ykkur til þess að vera duleg að senda inn bæði hugmyndir og hrós til ráðsins á netfangið hverfisradhriseyjar@akureyri.is