Hópganga í tilefni af Kvennaverkfalli

Í dag stóð Kvenfélag Hríseyjar fyrir hópgöngu í tilefni af Kvennaverkfalli. Rúmlega 30 konur og stuðningsmenn þeirra söfnuðust saman við Hríseyjarbúðina kl. 11.15. Dröfn Teitsdóttir, gjaldkeri Kvenfélagsins og einn af skipuleggjendum viðburðarins sagði nokkur orð áður en lagt var af stað:

„Kvenfélagasamband Íslands er einn af fjölmörgum aðstandendum samstarfsverkefnisins Kvennaár 2025.
Kvennaárið samanstendur af viðburðum þar sem konur og/eða kvár koma saman, auk framlagningu krafna um gerðir í þágu jafnréttis. Þannig er Kvennaárið framhald af fyrri baráttu kvenna, t.d. Kvennafrís og Kvennaverkfalla.

Í ár eru 50 ár liðin frá fyrsta Kvennaverkfallinu og því ærin ástæða til að koma saman og sýna baráttunni stuðning í verki.
Kröfurnar sem hafa verið lagðar fram eru fjölmargar en það er hægt að flokka þær í eftirfarandi flokka:

  • Vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti
  • Ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð og
  • Kynbundið ofbeldi

Það er gaman að geta þess líka að í ár eru 140 ár frá því Bríet Bjarnhéðinsdóttir fékk birta grein um kvenréttindi í Fjallkonunni og varð þar með fyrst kvenna til að fá birta grein eftir sig í blaði á Íslandi.

140 ár er langur tími, margt hefur unnist á þeim árum en þó er eitthvað í land ennþá og því eru kjörorð dagsins: Við mætum þar til við þurfum ekki að mæta lengur.“

Síðan lagði gangan af stað og gekk hring í þorpinu og fram hjá kvennavinnustöðum í eyjunni, í nútíð og þátíð.

Gangan byrjaði við Hríseyjarbúðina sem hefur verið verið vinnustaður hríseyskra kvenna í marga áratugi. Síðan var gengið niður að frystihúsinu sem var náttúrulega stærsti vinnustaður Hríseyjar á síðustu öld og fram á þessa. Þaðan lá leiðin fram hjá Verbúðinni og fiskvinnslunni Borg, sem var starfandi á tíunda áratug síðustu aldar og þaðan horfðum við upp á Pósthúsið gamla, en þar voru konur ríkjandi í marga áratugi. Þaðan lá leiðin upp að Íþróttamiðstöð sem er vinnustaður kvenna og upp að skóla sem er stærsti vinnustaður kvenna í Hrísey í dag. Þar við hliðina er Hlein þar sem starfa að lágmarki þrjár konur daglega þessi misserin. Þaðan lá leiðin út Hólabraut, fram hjá Kirkjunni og Brekku, þar sem konur hafa starfað lengi. Síðan var komið að því að ganga fram hjá Skólavegi þar sem Gamli skóli er, þó svo að það hafi ekki margir kennarar þar verið kvennmenn þá störfuðu margar konur í húsinu þegar það var nýtt sem starfsstöð Sparisjóðsins eftir að skólastarfi lauk í húsinu. Á leiðinni niður Norðurveg horfðum við niður á Hvamm þar sem margar konur hafa starfað í fiskvinnslu í gegnum tíðina.

Á göngunni sköpuðust líflega umræður um hin ýmsu málefni og það var gaman að rifja upp atvinnusögu kvenna í Hrísey í gegnum tíðina í leiðinni.