Lagning ljósleiðara í Hrísey

Ljósleiðara stofnstrengur var lagður til Hríseyjar í nóvember síðastliðinn. Heildarkostnaður framkvæmdina alla var um 41 milljón m/vsk. Ríkið, Akureyrarbær og Tengir hafa komið ríflega að þessu máli en nú er boltinn hjá okkur íbúum og húseigendum að sýna því áhuga að taka ljósleiðara inn í hús og tryggja að uppbygging ljósleiðaratengingar í Hrísey fari fram næsta sumar.

Meðfylgjandi er bréf frá Hverfisráði Hríseyjar.


Kæru Hríseyingar

Hverfisráð Hríseyjar óskaði eftir því við bæjarráð Akureyrarbæjar að send yrði umsókn til Fjarskiptasjóðs varðandi lagningu á ljósleiðara til eyjarinnar í febrúar 2021. Styrkur að upphæð 6 milljónir fékkst frá Fjarskiptasjóði en í ljós kom að heildarkostnaður við lagningu stofnstrengs og framkvæmdina alla væri mun hærri, eða um 41 milljón m/vsk. Samþykkti bæjarráð Akureyrarbæjar að leggja til 24 milljónir til viðbótar, enda taldi bæjarráð mikilvægt fyrir samfélag og atvinnulíf í Hrísey að hingað yrði lagður ljósleiðari, sem það sannarlega er. Tengir lagði til það sem upp á vantaði og var strengurinn lagður í október. Fyrstu notendur voru tengdir í desember þegar Hríseyjarskóli, íþróttamiðstöðin og skrifstofa Akureyrarbæjar í Hlein voru tengd.

Ríkið, Akureyrarbær og Tengir hafa því komið ríflega að þessu máli sem er afar gleðilegt.
Nú er boltinn hins vegar hjá okkur íbúum og húseigendum að sýna því áhuga að taka ljósleiðara inn í hús. Samkvæmt upplýsingum frá Tengi mun áhugi íbúa og þátttaka hafa áhrif á umfang framkvæmda næsta sumar, þar sem Tengir hefur þegar skuldbundið sig til að sinna ýmsum öðrum verkefnum.

Stofngjald á hverja tengingu er 96.000 kr. (með vsk. sem fæst endurgreiddur) fyrir hvert samband. Er það sama gjald og Tengir hefur boðið í gömlum hverfum innanbæjar á Akureyri. Á það við um íbúðarhús, sumarhús og fyrirtæki. Heildarkostnaður og fjárfesting Tengis í hverju sambandi er hins vegar mun hærri og hefur fjöldi tenginga þar talsverð áhrif. Því er einnig ljóst að mun dýrara verður fyrir notandann að taka inn ljósleiðara seinna og því hvetjum við alla húseigendur að grípa tækifærið núna, sama hvort standi til að kaupa þjónustu í gegnum tenginguna strax eða síðar.

Ljósleiðari er bæði nútíð og framtíð þegar kemur að gagnaflutningi og tilkoma hans hefur valdið byltingu í samskiptatækni. Ljósleiðarinn leysir af hólmi koparvírinn sem notaður er í Hrísey í dag en þykir aðeins tilheyra fortíðinni. Internet, sjónvarp og heimasími tengjast um ljósleiðarann en með auknum myndgæðum sjónvarpsútsendinga eykst þörf á öflugum tengingum. Gagnamagnið sem ljósleiðaratenging getur flutt er háð þeim endabúnaði sem settur er á strenginn, en í dag býður Tengir viðskiptavinum sínum upp á allt að 1 Gb/s gagnaflutningshraða (1000 Mb/s). Til samanburðar er Ljósnet tengingin í Hrísey í dag að mælast um 30-50 Mb/s og munurinn því gígantískur.

Við hvetjum alla til að hafa samband við Tengir og sýna áhuga. Með samstöðu getum við tryggt að uppbygging ljósleiðaratengingar í Hrísey fari fram næsta sumar. Bendum jafnframt á að Tengir veitir allar nánari upplýsingar ef einhverjar spurningar eru.

Með von um jákvæð viðbrögð
Hverfisráð Hríseyjar