Nýr slökkvibíll í Hrísey

Nýi slökkvibíllinn fyrir utan slökkvistöðina. Örvæntið ekki - V-ið er fundið og fer upp fljótlega!
Nýi slökkvibíllinn fyrir utan slökkvistöðina. Örvæntið ekki - V-ið er fundið og fer upp fljótlega!

Slökkvilið Akureyrar í Hrísey fékk í dag afhendan nýjan slökkvibíl af gerðinni Mercedes Benz Sprinter árgerð 2008. Nýi bíllinn leysir af hólmi eldri slökkvibíl eyjarinnar, MAN árgerð 1987 sem Hríseyjarhreppur keypti árið 2003.

21 árs aldursmunur er á slökkvibílunum tveimur, gamli bíllinn hefur þjónað sínu hlutverki vel í Hrísey en var kominn á tíma varðandi viðhald og fleira. Nýi bíllinn er útbúinn hinu svokallaða one-seven kerfi þar sem vatn er blandað sérstakri one-seven slökkvifroðu ásamt háþrýstilofti svo sem einn hluti vatns verður að sjö hlutum af froðu. Í bílnum er þúsund lítra vatnstankur sem skilar átta þúsund lítrum af slökkviefni en til samanburðar má nefna að í gamla bílnum er 2.400 lítra vatnstankur. Tæknin gerir slökkviliðinu því kleift að vera á léttari og hraðskreiðari bíl, slökkvigetan eykst ásamt því að vatnsþörf verður minni.

Með tilkomu nýja slökkvibílsins kemst sjúkrabíllinn nú inn í slökkvistöðina sem skapar aukið pláss í björgunarsveitarhúsinu sem leysir margra ára vandamál varðandi plássleysi.

Næstkomandi laugardag er 11.2 dagurinn og verður opið hús í slökkvistöðinni og björgunarsveitarhúsinu frá kl. 14-16 þar sem gestum er boðið að koma að skoða nýja slökkvibílinn ásamt sjúkrabílnum og búnaði björgunarsveitarinnar. Áhugasömum gefst jafnframt kostur á að prófa að slökkva eld með slökkvitæki. Við hvetjum alla til að kíkja í heimsókn í slökkvistöðina og björgunarsveitarhúsið laugardaginn næsta.