Þróunarfélag Hríseyjar

Hrísey, eyja tækifæranna
Hrísey, eyja tækifæranna

Eftirfarandi bréf var sent til margra félaga og fyrirtækja í Hrísey fyrr í vikunni. Öll fyrirtæki, félög og einstaklingar eru velkomin að borðinu að taka þátt í stofnun Þróunarfélags Hríseyjar.

,,Komið þið sæl.

Stefnt er að því að koma af stað Þróunarfélagi Hríseyjar og viljum við bjóða fyrirtækjum og félögum í Hrísey að vera með í stofnun þess. Þróunarfélag Hríseyjar mun halda utan um byggðaþróunarverkefnið Áfram Hrísey sem hefur verið starfandi í síðan í september 2022 og er ég, Ásrún Ýr Gestsdóttir, starfandi verkefnisstýra þess. Yfir verkefninu er einnig verkefnastjórn þar sem í dag sitja fulltrúar frá UMFN, Ferðamálafélagi Hríseyjar og Akureyrarbæ.

Aðeins um verkefnið Áfram Hrísey.

Það markmið sem við sjáum fyrir okkur er að auka fjölbreytileika í búsetu og starfsumhverfi eyjarinnar, byggja um upp barnvænt og heilbrigt samfélag þar sem Hrísey styrkist með auknum fjölbreytileika íbúa og starfa. Með auknum íbúafjölda fylgja fleiri og fjölbreyttari störf meðal annars í formi nýsköpunar og þjónustu. Allt vinnur þetta saman að því að styrkja byggðarlagið og gera það aðlaðanndi sem búsetukost fólks á öllum aldri. Hrísey var í átakinu Brotthættar Byggðir og viljum við byggja á þeim grunni sem þar var settur og gera Hrísey að sterku samfélagi þar sem íbúar og byggð fá tækifæri til þess að dafna. Byggja upp barnvænt, heilbrigt og umhverfisvænt samfélag en eyjan býður svo sannarlega upp á aðstöðuna til þess. Það er mikilvægt að nýta sér þann meðbyr sem fjarvinna og fjarnám hafa fengið síðustu tvö ár. Fólk er að gera sér betur og betur grein fyrir því að tækifærin eru til staðar á landsbyggðunum og vilja Hríseyingar nýta það tækifæri til þess að efla eyjuna og koma henni á kortið sem góðan framtíðar búsetukost. Árangurinn er hægt að mæla meðal annars með íbúafjölda og fjölda barna á leik- og grunnskólaaldri, þar sem markmiðið er að fjölga íbúum, fjölskyldufólki og störfum. Einnig er að hægt að telja fjölda stöðugilda lamennt í Hrísey til þess að sjá hvort að því markmiði sem við setjum okkur um aykna og fjölbreytta atvinnu hafi náðst eða hvort það sé í framþróun.

Í apríl 2022 úthlutaði innviðaráðherra styrkjum sem ætlað er að efla byggðir landsins og var úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C. 1). Ferðamálafélag Hríseyjar fékk styrk fyrir verkefnið Áfram Hrísey í samstarfi við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra að upphæð 10.000.000 kr. Verkefnastjóra er ætlað að vinna að byggðaþróun og uppbyggingu Hríseyjar sem vænlegum búsetukosti fyrir fjölskyldufólk.

Nú þegar hefur verkefnið greint stöðu á húsnæðismarkaði í Hrísey og er Akureyrarbær að vinna beiðnir sem sendar hafa verið í sambandi við breytingar á lóðum til bygginga á par og/eða raðhúsum. Verkefnisstýra situr vikulega fundi með SSNE og mánaðarlega með Byggðastofnun.

Í verkefninu er unnið meðal annars að eftirfarandi:

Fylgjast með og auglýsa innan eyjarinnar styrkumsóknir fyrir atvinnuuppbyggingu.

Aðstoða fólk við að flytja til eyjarinnar, svo sem með því að svara fyrirspurnum og gera upplýsingar aðgengilegar.

Stuðla að nýsköpunartækifærum, t.d með fyrirlestrum og vinnustofum með það markmið að laða að fagfólk sem getur starfað óháð staðsetningu og búið í eyjunni.

Þróunarfélagið verður leiðandi í almennri byggða og uppbyggingaþróun í Hrísey í samvinnu við fyrirtæki, íbúa og félög í Hrísey ásamt Akureyrarbæ. Við viljum gefa öllum tækifæri til þess að vera með í félaginu og taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu í Hrísey. Stefnt er að stofna félagið þann 3.júní þegar Hríseyingar halda sjómannadagsgleði sína.

 

Ef þú/þið hafið áhuga á að taka þátt sem stofnendur Þróunarfélags Hríseyjar, eða hafið einhverjar spurningar, edilega sendið tölvupóst eða hringið í símanúmerið hér fyrir neðan.

Bestu kveðjur.

Ásrún Ýr Gestsdóttir, Verkefnisstýra Áfram Hrísey

afram@hrisey.is

(354) 866 7786 "