Verkefnið Sögur úr Hrísey hlýtur styrk úr Hvata styrktarsjóði
Í haust auglýsti Menningar- og viðskiptaráðuneyti eftir umsóknum í Hvata styrktarsjóð. SSNE hafði samband við verkefnastjórn Áfram Hrísey verkefnisins hvort við værum með einhverjar hugmyndir að umsókn frá Hrísey. Send var inn umsókn fyrir verkefnið Sögur úr Hrísey sem var í dag úthlutað styrkur að upphæð 1.000.000 kr. Þar sem kennitala fyrir Þróunarfélag Hríseyjar var ekki komin á þessum tíma var umsóknin send inn í nafni Ungmennafélagsins Narfa en verkefnið verður unnið innan Þróunarfélags Hríseyjar. Verkefnastjóri er Ingólfur Sigfússon.
Lýsing á verkefninu
Hljóðrituð verða viðtöl við Hríseyinga, sögum safnað og menningarlegar heimildir varðveittar. Rætt verður um lífið í gamla daga, byggðaþróun, menningu, listir og allt það mögulega sem viðmælendur hafa frá að segja. Settur verður upp rafrænn sagnagrunnur þar sem sögur verða skráðar. Stefnt er að því í framhaldinu að búa til app svo að gestum og gangandi muni gefast kostur á að hlusta á sögur um leið og það gengur um Hrísey. Sérhvert samfélag byggir á grunni fyrri kynslóða og er mikilvægt að heimildir um líf á fyrri tímum glatist ekki.
Markmið verkefnisins er að varðveita heimildir um byggðaþróun, menningu og sögu Hríseyjar í samvinnu við eldra fólk sem hefur lifað tímana tvenna. Miðla áfram þeim sögum og upplýsingum. Búa til sjálfbæra afþreyingu fyrir heimamenn og ferðafólk sem ásamt því að ganga um Hríseyska náttúru getur notið þess að hlusta á sögur af fólkinu sem ruddi brautina. Tengja saman kynslóðir, ungum gefst færi á að setja sig í spor þeirra sem eldri eru og fræðast um lífið á fyrri tímum og hverju við eigum að þakka það sem við höfum í dag.