Gönguleiðir í Hrísey

Hrísey er rétt um 11,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Hún er um 7 km að lengd og 2,5 km þar sem hún er breiðust. Hæst er hún rétt norðan við vitann, en þar er hún 110 m yfir sjó. Þar er kallaður Bratti og eru skriður þar fram í sjó.

Miklir garðar liggja um eyjuna þvera og endilanga. Þessir garðar eru taldir mjög fornir og virðast sumir þeirra vera landamerkjagarðar. Lengsti garðurinn er nærri 3 km langur.

Þrjár merktar gönguleiðir eru á suðureynni.
Græna leiðin, u.þ.b. 2,3 km.
Gula leiðin, u.þ.b 4,5 km.
Rauða leiðin, u.þ.b. 5,0 km.

Nánari upplýsingar um gönguleiðir í Hrísey https://www.visitakureyri.is/is/see-and-do/gonguleidir/hrisey


Margt er hægt að sjá á þessum gönguleiðum og fræðast um annað. Fjöldi skilta með ýmsum fróðleik er á gönguleiðunum.


Smellið til að sjá stærri útgáfu af kortinu

 


Hér verða nefnd nokkur dæmi um það sem fyrir augu ber á gönguleiðunum.

Eyðibýlið Hvatastaðir er austan til á eynni. Þar er vel varðveitt bæjarrúst, en enginn veit frá hvaða tíma. Þar er líka fjárhústóft og eru tvöfaldir garðar umhverfis. Innri garðurinn er 140 m langur og sá ytri 725 m langur. Þá er merkilega grjóthlaðin tóft þarna stutt frá Er hún á blásnum malarhól. Dyr eru á austurgafli tóftarinnar.

Fornar kolagrafir eru víða um eyjuna. Ein mjög vel varðveitt er við Grænu leiðina. Þar er sagt frá því á upplýsingarskilti hvernig kol voru unnin úr trjágróðri þeim sem til var í eynni til forna. Víða hefur verið plantað trjám í Hrísey á undanförnum árum og áratugum. Því má með sanni segja að ekki séu öll kurl komin til grafar.

Við sömu gönguleið er farið hjá fornum svarðargröfum (mógröfum). Þar er skilti sem segir frá því hvernig svörður var tekinn og hann þurrkaður og notaður til eldiviðar.

Orkulindin á austurhluta eyjarinnar veitir frið þeim sem héldu að hann væri glataður í erli daganna. Þarna er önnur mesta orkulind landsins þar sem geislar friðar og elsku streyma um svæðið frá fjallinu Kaldbak, sem hér gnæfir austan fjarðar. Það er þess virði að nema staðar á þessum stað og setjast niður ef þannig viðrar og lesa á upplýsingarskiltið sem er á þessum rómaða stað. Hvergi sjást betur en héðan rústir eyðibýlanna sem stóðu við sjóinn út eftir allri Látraströndinni. Tignarleg fjöllin gnæfa yfir og glæða umhverfið ævintýralegum blæ.

Á einum stað sjást greinilega ummerki eftir þykkan jökul sem á síðasta jökulskeiði skreið úr suðri, yfir Hrísey og síðan út Eyjafjörðinn. Djúpar ávalar grópir og fíngerðar sprungur gefa hugmynd um þann ógnarkraft sem þarna átti sér stað. Á skilti er sagt nánar frá þessu náttúrufyrirbæri. Nokkrum metrum austar fann jarðfræðingurinn Guðmundur Ómar Friðlaugsson mikið sniðgengi sem er afar sjaldséð á Íslandi. Færsla á því mun nema 20 m. Þannig að austurhliðin hefur færst til norðurs, en meginhluti eyjarinnar hefur færst til suðurs og hallar sniðgenginu um 20-30 % til suðvesturs undir eyjuna. Jarðhiti í Hrísey er talinn tengjast þessu sniðgengi segir í jarðfræðipunktum um Hrísey eftir Guðmund.

Fuglalífi í Hrísey er gerð góð skil á mörgum skiltum sem eru við gönguleiðirnar. Nær 40 tegundir verpa að staðaldri í eynni. Sumar tegundirnar eru mjög fáliðaðar, en af öðrum eru mörg þúsund.

Þann 12. júlí árið 1202 sté Guðmundur Arason biskupefni á leið til vígslu í Noregi á land í eynni og messaði á þeim stað sem hefur verið mitt á milli allra bæjanna sem þá voru í eynni. Þar eru enn örnefnin Biskupshalli og Biskupshallarholt. Frá þessum atburði er sagt frá á skilti við gönguleiðina og hverju hann hét í þessari ferð sinni í eyjuna og stóð við 30 árum síðar, þá sem Guðmundur biskup hinn góði.

Þessi texti er ritaður af Þorsteini Þorsteinssyni frá Hrísey.