Hríseyjarviti

Kveikt var á Hríseyjarvita þann 6. nóvember 1920 og hann formlega tekinn í notkun.

Ég er búin að taka saman smá upplýsingar um vitann okkar og langar að leyfa þeim að birtast hér.

Hér er fyrst smá fróðleikur frá Þorsteini Þorsteinssyni sem birtist á Facebook síðu Hríseyjar:

Árið 1920, eða fyrir 100 árum er skrifað um mikilsverðan atburð fyrir siglingar um Eyjafjörð, en í byrjun nóvember það ár var kveikt á nýju vitunum í Hrísey, Hjalteyri og Svalbarðseyri. Vitunum er þannig fyrirkomið að ljós Hríseyjarvitans, sker ljós vitanna á Siglunesi og í Flatey og ljós Svalbarðseyrarvitans og Hríseyjarvitans skerast við Laufásgrunn. Ágúst bóndi í Ystabæ, verður vitavörður Hríseyjarvitans.
Því set ég hér inn, vísu Jóhanns Nílsen á Hámundarstöðum, sem hann orti til vitans.

Þú stendur viti á háum hól
og horfir yfir ættarból.
Um láð og haf þú lætur skína,
ljóssins fögru geisla þína.

Takk Steini fyrir fróðleikinn, hér fyrir neðan eru svo nánari upplýsingar um vitann.

Bygging Hríseyjarvita var heimiluð af sjávarútvegsnefnd alþingis til Landstjórnar og vitamálum fengið verkið í hendur skv. frumvarpi laga um vitabyggingar árið 1917 sem tóku síðan gildi þann 1. janúar 1918.

Fé til byggingar Hríseyjarvita var þó bundið þeim skilyrðum að Eyjafjarðarhéruðin skuldbundu sig til að byggja Hjalteyrarvita og Svalbarðaseyrarvita en á móti kostaði Landstjórnin að reisa Hríseyjarvitann, og síðan í framhaldinu rekstur og viðhald Hjalteyrarvita og Svalbarðseyrarvita. Þeir voru allir 3 byggðir á sama tíma af vinnuflokki vitamála og Svalbarðseyarviti var byggður eftir sömu teikningu og Hríseyjarvitinn, en Hjalteyrarvitinn var gerður sem stálgrindarviti.

Hönnuðir vitans voru Thorvald Krabbe og Guðmundur J. Hlíðdal verkfræðingar.

Vitinn var upphaflega hvítur að lit með rauðu bandi á miðjum veggjum. Handrið á svölum var úr járni en hefur vikið fyrir öðru smíðuðu úr málmstoðum og tré og slétt hurð hefur verið sett í stað spjaldahurðar.

Hríseyjarviti er 5 m hár steinsteyptur turn, 2,7x2,7 m að utanmáli. Á honum er 3,3 m hátt ljóshús úr járni. Vitinn stendur á steinsteyptri undirstöðu sem nær um 0, 25 m út fyrir veggi. Veggir eru múrdregnir/yfirdregnir með múr en það mótar fyrir borðamótum í gegnum múrinn. Dyr eru á suðurhlið og fyrir þeim slétt hurð. Yfir þeim er fjögurra rúðu krosspóstagluggi og undir honum steinsteypt vatnsbretti. Efst á veggjum er framstætt band undir stölluðu þakskeggi. Á brún þess er einfalt handrið úr málmstoðum og tréslám. Járnstigi er af jörðu upp á svalir umhverfis ljóshúsið.

Hið innra er vitinn eitt rými og járnstigi er upp í ljóshúsið að lúgu í gólfi þess. Veggir og loft eru múrhúðuð og máluð. Ljóshúsið er áttstrent að grunnformi, 1,69 m að þvermáli og vegghæð þess 1,5 m. Gluggaband, 0,80 m á hæð, er efst á veggjum allan hringinn með átta trapisulöguðum rúðum sem hallast út að ofan. Þakið er áttstrent, smíðað úr járni og rís upp í lága keilu og á því efst er lofttúða. Í ljóshúsinu er 360° katadíoptrísk 500 mm linsa með 110 volta 1000 watta aðalperu og 24 volta 150 watta varaperu.

Kveikt var á Hríseyjarvita, Hjalteyrarvita og Svalbarðseyrarvita þann 6. nóvember 1920 og þeir formlega teknir í notkun fyrir sjófarendur.

1. desember 2003 var vitinn friðaður af menntamálaráðherra samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin tekur til ytra og innra borðs vitans og ljóshúss, þar með eru talin, linsa, linsuborð og lampi, stigar, handrið, hurð og gluggi. Friðunin tekur einnig til umhverfis vitans í 100 m radíus út frá honum, en að bjargbrún norðan hans.

Tilgangur Hríseyjarvitans er að vera leiðbeiningamerki fyrir siglingar inn og út Eyjafjörðinn og merkja greiða leið sem hægt er sigla eftir án þess að lenda í ógöngum og rekast á sker og boða. Hann varar sjófarendur með lituðum hættuhornum um svæði sem ekki skal sigla á, og hvítu ljósi þar sem hreinan sjó er að finna og skipin laus við hættur.

Fjölskylda Ottós Þorgilssonar gaf skitli á vitann með nöfnum allra vitavarða sem starfað hafa við vitann frá upphafi, en Ottó starfaði í 33 ár sem vitavörður lengst allra.

Heimildir:
http://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/nordurlandeystra/nr/646

https://timarit.is/page/4852438?iabr=on#page/n15/mode/2up

Vegagerðin.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Kveðja fh. hönd Ferðamálafélags Hríseyjar

Linda María Ásgeirsdóttir.