Föstudagsfréttir

Öskudagshópurinn í Hrísey
Öskudagshópurinn í Hrísey

Vikan sem er að líða hefur verið vika matar og sælgætis.

Síðasta sunnudag var konudagur og Verbúðin var með glæsilegt kökuhlaðborð í tilefni dagsins. Var það vel sótt, enda upplagt að bjóða hríseyskum konum í kaffi og njóta með þeim. Bolludagurinn kom, uppfullur af rjóma og allskyns bollum. Voru eyjaskeggjar sællegir að sjá á göngum sínum þann daginn. Lyktin af saltkjöti og afleiðingum baunasúpu lá yfir Hrísey á sprengideginum. Samkvæmt óformlegri könnun á instagram síðun Hríseyjar var þessi gamli íslenski matur á borðum nánast í hverju húsi eyjarinnar þann daginn. Kom svo loks að einum uppáhalds degi barna um allt land, ekki síst í Hrísey, öskudegi. Slógu krakkarnir köttinn úr tunnunni fyrir framan Hríseyjarbúðina, tunnukóngur var Brynjólfur Bogason og kattarkóngur Heimir Sigurpáll Árnason. Fóru krakkarnir, Hríseyjarskóli og leikskólinn Smábær, saman í öll fyrirtæki í eyjunni og sungu fyrir nammi. Fór síðan allur grunnskólinn, gekk í hús og söng fyrir eyjaskeggja og söfnuðu í ferðasjóð nemendafélagsins. Þakka krakkarnir fyrir góðar móttökur!

Vetrarfrí er í skólum eyjarinnar, rétt eins og fleiri skólum um landið. Umferð gangandi og leikandi er því meiri en oft áður yfir daginn og biðjum við akandi vegfarendur að gæta sérstaklega að sér. 

Sumarstörf hafa verið auglýst hér á síðunni.

Íþróttamiðstöðin er að leit að sumarstarfsfólki og hægt að sækja um hér. 

Rannsóknamiðstöð ferðamála er að leita að meistaranema í rannsóknastarf og lesa má meira um það hér.

Akureyrarbær er að auglýsa eftir launafulltrúa í sumarstarf. Ekkert ætti að standa í vegi fyrir að starfa í skrifstofuhúsnæði Akureyrarbæjar í Hlein og sótt er um hér.

Í dag, föstudag, býður UMF Narfi og sundlaugin í diskó-sund klukkan 18:00! Frábært framtak og við hvetjum öll til þess að mæta og synd-dansa sig inn í helgina. 

Það verður bíó í Sæborg í boði ungmennafélagsins og verða tvær sýningar. Ein fjölskyldusýning klukkan 15:00 og svo sýning fyrir follorðna klukkan 20:30. Eru þetta óvissusýningar því hvergi hefur verið uppgefið hvaða myndir verða. Eina leiðin til þess að komast að því hvaða mynd verður í tækinu, er að mæta!

Veðrið um helgina verður gott. Hiti verður um og yfir 5 gráður en sólin mun að mestu fela sig bakvið ský

 

.  Gunnhildur Móey íkorni og ljónið Egill Birnir  Hásetinn Patrekur og skipstjórinn Arnór Breki um borð í Karrmáki