Föstudagsfréttir

Þorramatur frá Verbúðinni 66 á Þorrablóti Hríseyjar
Þorramatur frá Verbúðinni 66 á Þorrablóti Hríseyjar

Frá síðustu föstudagsfréttum hefur verið mikið líf í Hrísey. Fjölmenni var á vel heppnuðu þorrablóti þar sem matur, skemmtiatriði og ball sló í gegn! Við þökkum fráfarandi og lengst setnu þorrablótsnefnd fyrir góð störf og frábært kvöld. Sú nefnd sem tekur nú við keflinu hefur strax hafist handa við undirbúning og lítill fugl hvíslaði því að fréttaritara að 10.febrúar væri gott að gera engin stór plön árið 2024.

Laugardagurinn síðasti var stormasamur, en það stoppaði ekki Hríseyinga og gesti að fjölmenna í Hlein í hádegisgrautinn. Þar var svo tilkynnt um veglegan styrk sem Menja ehf færði Ungmennafélaginu Narfa og lesa má um hér. Þeim Elínu og Árna verður seint full þakkað fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Var Ásrún til viðtals á Bylgjunni og Vísi vegna laugardagsins og hæg er að lesa fréttina hér. Foreldrafélag Hríseyjarskóla hélt kökubasar í Hríseyjarbúðinni þar sem tertur, heitir réttir, brauð, snúðar og allskyns bakkelsi var á boðstólnum. Stormurinn virtist hafa fleygt gestum frá Hlein niður í búð því þar myndaðist röð áður en basarinn opnaði! Þakkar foreldrafélagið kærlega fyrir stuðninginn. Björgunarsveitin og Slökkviliðið opnuðu dyr sínar, enda 11.2 dagurinn, og var gestum boðið að skoða ný og gömul tæki sem eru til staðar í Hrísey. Áhugasamir fengu að prófa að slökkva eld með heimilisslökkvitækjum á meðan aðrir nutu þess að drekka kaffi eða bragða á ís. Það vildi þó þannig til að upp kom óformlegt neyðarkall þegar hátíðarsviðið og salernishúsið á Hátíðarsvæðinu hugsaði sér hreyfingar í storminum. Snögg viðbrögð björguðu hvoru tveggja frá því að fjúka á braut eða skemmast, og kom þá sannarlega í ljós hversu öflugt fólk við höfum hér í þessum sjálfboðaliðastörfum. Hægt er að sjá fleiri myndir frá deginum á facebook síðu Björgunarsveitarinnar hér.

Hríseyingar og gestir skunduðu því næst á þorrablót sem var vel heppnað eins og áður segir. Það var greinilegur þorrablóts-þorsti eftir þriggja ára bið. 

Í vikunni var hefðbundið starf hjá Umf Narfa og við minnum á þá fjölbreyttu dagskrá sem félagið heldur úti. Er hún sett inn í viðburðardagatalið hér á síðunni svo ekkert ætti að fara framhjá áhugasömum.

Verkefnastjórn Áfram Hrísey fundaði í vikunni og verkefnisstýra sendi frá sér greinagerð og stöðu um húsnæðismarkaðinni í eyjunni. Farið var yfir möguleika fjarvinnusetursins og skrifstofurýmis í Hlein. Ásrún hefur átt samtöl við aðila sem sýnt hafa áhuga á að vera með í þeirri vegferð að koma fjarvinnu í Hrísey meira á framfæri um allan heim. Það verður spennandi að fylgjast með því. Ábendingar voru sendar til Akureyrarbæjar í sambandi við heimasíðu sveitarfélagsins þar sem uppfæra mætti ýmis atriði er viðkoma Hrísey. Enn bíðum við eftir að vinna hefjist á breytingum á lóðaskipulagi Hríseyjar. Best væri að vinnan yrði unnin á sem skemmstan og besta máta svo áhugasamir aðilar um uppbyggingu hér, haldi áhuga sínum. 

Við óskuðum eftir ljósmyndum sem mætti nota á heimasíðu og samfélagsmiðlum fyrr á árinu og þó við höfum fengið nokkrar langar okkur enn að bæta við. Einnig hvetjum við ykkur til þess að merkja Hrísey (facebook) og/eða hriseyisland (instagram) þegar þið deilið myndum úr Hrísey. Svo má alltaf deila myndum, myndböndum, viðburðum og fréttum frá öllum okkar miðlum. Það er gaman að segja frá því að samfélagsmiðlarnir Hrísey á facebook og Hrísey og Instagram hafa náð athygli tæplega 7000 mismunandi einstaklinga um bæði heim allan og svo allstaðar af á Íslandi. Eitt af markmiðum Áfram Hrísey verkefnisins er að vekja athygli á Hrísey og óhætt að segja að það sé að skila árangri. 

Um komandi helgi er konudagurinn og verður kaffihlaðborð á Verbúðinni í tilefni þess. Hiti verður um og rétt neðan við frostmark og gera má ráð fyrir smá snjókomu. Það þýðir samt bara að það veði enn notalegra að sitja og slappa af í heitapottinum í sundlauginni. Við minnum á að fylgjast með viðburðardagatalinu! Það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur og við viljum endilega fá sem flest til að vera með.

Fjölmenni í graut  Kökubasar  Klas kveikir eld  Narfi og nýji sleðinn  Þorrablót