Gunnsteinn Ólafsson og Þórarinn Eldjárn með upplestur á Verbúðinni 66

Upplestur með rithöfundum á aðventunni.

Komum saman og eigum notalega stund á Verbúðinni 66 sunnudaginn 11. desember kl. 16.00. Heitt á könnunni og upplestur í boði.

 

Hjarta Íslands – Gunnsteinn Ólafsson

Hjarta Íslands - Frá Hrísey til Fagradalsfjalls er þriðji og síðasti hluti stórvirkis Gunnsteins Ólafssonar og Páls Stefánssonar um Ísland. Gunnsteinn fléttar hér saman náttúrulýsingum, sögu, þjóðtrú og bókmenntum og Páll Stefánsson ljósmyndari sýnir allar sínar bestu hliðar, bæði á jörðu niðri og úr lofti.

Fyrsta bindið fjallaði um perlur hálendisins, þá var farið um Vesturland, Vestfirði og norður til Eyjafjarðar og nú er komið að Norðausturlandi, Austfjörðum og Suðurlandi, allt til jarðeldanna við Fagradalsfjall.

Gunnsteinn Ólafsson hefur um árabil verið leiðsögumaður fyrir ferðamenn um Ísland og Páll Stefánsson er einn af okkar fremstu ljósmyndurum.

Fyrri bækurnar tvær hafa hlotið mikið lof, Hjarta Íslands – Perlur hálendisins (2018) og Frá Eldey til Eyjafarðar (2020). Þriðja bindi Hjarta Íslands er sannkallaður kjörgripur, ómissandi öllum þeim sem unna náttúru, sögu og menningu Íslands.

TÆTTIR ÞÆTTIR – Þórarinn Eldjárn

Þrjátíu og sjö áður óbirtir þættir sem fara úr einu í annað um hitt og þetta. Þar á meðal reynslusögur, minningar, athuganir, viðhorf, áhorf, sagnir og smælki. Auk þess nokkrar ferilskrár.

Meðal efnis: Nytjadraumar, Snorralaug í Helgadal, Nokkrar Bessastaðasögur, Þrír Halldórar, Skakkur ansats, Hirðskáldið, Hirðfíflið, Kristmann og Ursus, Guðlast í húsi biskups, Köttur frá Steini, Að vega nema og muna, Í safninu.

Þórarinn kemur líka með vísnakverið Allt og sumt sem kom út í vor og lætur nokkrar stökur fjúka.

Verður með bækur til sölu á sanngjörnu verði. .