Áform um stofnun hlutafélags um rekstur verslunar í Hrísey

Kæru íbúar, sumarhúsaeigendur og aðrir velunnarar Hríseyjar Að undanförnu hefur hópur fólks í Hrísey rætt möguleika á rekstri verslunar í eynni. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar og hvaða form gæti verið á slíkum rekstri.  Eftir nokkra skoðun eru nú uppi áform um stofnun hlutafélags um rekstur verslunar í Hrísey.

Meiningin er að allir geti gerst hluthafar, íbúar, sumarhúsaeigendur og aðrir velunnarar eyjarinnar. Best væri að fá sem flesta til að gerast hluthafar, munum að margt smátt gerir eitt stórt. Verið er að vinna að gerð rekstraráætlunar.

Ætlunin er að verslunin verði staðsett í gamla kaupfélaginu og rætt hefur verið við eiganda hússins um leigu á því. Þá er hugmyndin að Pósturinn verði inni í versluninni sem styrkja ætti reksturinn.

Síðar í mánuðinum er áformað að halda stofnfund hins nýja félags. Í framhaldinu verður kosin stjórn og henni falið að stýra rekstri fyrirtækisins af skynsemi og varkárni og hún síðan auglýsir eftir starfsmanni.

Þó nokkrir hafa sett sig í samband við okkur og lýst sig reiðubúna til að leggja fram hlutafé.

Áhugasamir aðilar sem vilja taka þátt eða fá nánari upplýsingar geta sent tölvupóst á hrisey@hrisey.net.

Einnig mun Hrund Teitsdóttir svara fyrirspurnum en hún er með síma 694­-1285 og 466-­1785.

Tökum nú höndum saman og búum til okkar eigin verslun og samkomustað þar sem við getum hist og rætt málin. Að hafa enga verslun í eyjunni er einfaldlega óviðunandi.

Með von um góðar undirtektir.