Föstudagsfréttir

Hjólað þegar rigningin fer í frí
Hjólað þegar rigningin fer í frí

Þá er júní að líða undir lok. Hann endar blautur og kaldur en var þó að mestu okkur hlýr og sólríkur.

Með bleytunni og kuldanum koma rólegheitin. Færri hafa sést á ferli um eyjuna, slátturvélar þagna og eru það fuglarnir sem helst vappa um og syngja fyrir okkur.

Það hafa þó haldið áfram að koma hópar í heimsóknir til Hríseyjar, skoða náttúruna, kíkja í hús Hákarla-Jörundar og fá sér að borða á Verbúðinni 66. Svo er sundið alltaf vinsælt sama hvernig veðrið er. Hjólandi ferðamönnum hefur fjölgað og er orðið mjög vinsælt að hjóla gönguleiðirnar um eyjuna sem og út að vita.

Byrjað er að tína hvönn og fer hópurinn nú um eyjuna að safna saman þessari frábæru plöntu sem hægt er að nýta á svo marga vegu. Einn unglingur bættist í hópinn í Vinnuskólanum og eru því nú fleiri hendur að vinna við að fegra umhverfið. Við vonum nú að þurrari dagar séu framundan svo allt þetta duglega fólk sem vinnur undir berum himni fái góðar vinnuaðstæður. 

Annars hefur vikan verið frekar róleg hérna í Hrísey. Ásrún var í viðtali fyrir Áfram Hrísey í Mannlega þættinum á Rás1 á mánudeginum að ræða Þróunarfélagið, hátíðirnar sem haldnar verða í eyjunni í ár sem og mál Hríseyjar almennt. Áhugasöm geta hlustað á viðtalið hér.

Talandi um hátíðir. Þá ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að Hríseyjarhátíðin er í næstu viku! Dagksráin er komin hér inn á síðuna sem og Facebook.

Á föstudeginum er garðakaffið á sínum stað, óvissuferð barna, unglinga og fullorðinna eru ómissandi upphitun fyrir laugardeginum. Skemmtidagskráin, kaffisala kvenfélagsins, brekkusöngurinn og gleðin á laugardeginum og langtímaspáin segir ekki rigning!

Það mætti draga þá ályktun að fáar fréttir og rólegheit vikunnar sem er að líða sé lognið á undan hátíðarstorminum. Eyjaskeggjar og gestir að hvíla sig svo hægt verði að skemmta sér enn meira í næstu viku! Húseigendur eru hvattir til þess að skreyta húsin, garðana og umhverfið og hefur fréttaritari áreiðanlegar heimildir fyrir því að þó nokkrir ætli að taka skreytingarnar mjög alvarlega í ár. Endilega segið svo öllum frá þessari frábæru fjölskylduhátíð okkar hér í Hrísey!

Komandi helgi bíður upp á bleytu og fremur kalt veður. Hiti fer ekki í tveggja stafa tölu, sólin verður í felum en það er ekkert víst að sunnudagur verði eins blautur og laugardagur. Samkvæmt Veðurklúbbnum á Dalvík verður júlí heldur blautari en júní. Við munum bara að hafa sól í sinni. Hún birtist á himni fljótt aftur.