Föstudagsfréttir

Krakkar í fjöruleik í Hrísey
Krakkar í fjöruleik í Hrísey

Þá er þessi vika er að líða undir lok og þvílík vika. Veðrið hefur sýnt sínar bestu hliðar og útsýnið allstaðar í eyjunni verið eins og fegurstu málverk upp á hvern einasta dag.

Um síðustu helgi var haldið spilakvöld á Verbúðinni og mættu spilaglaðir eyjaskeggjar og gestir og spiluðu á nokkrum borðum allskyns spil. Bæði voru spiluð borðspil og á hefðbundin 52 spil. Mikil ánægja var með viðburðinn og búast má við því að spilakvöld verði endurtekið!

Hríseyjarskóli var í haustfríi mánudag og þriðjudag, nemendur fengu svo aukafrídag á miðvikudegi á meðan kennarar þeirra voru með starfsdag. Það hefur því verið hljótt þegar engin bjalla glymur í frímínótum og börnin flest nýtt sér fríið til þess að sofa lengur fram á daginn. Engu að síður eru krakkarnir dugleg að vera úti í allskyns leikjum og göngutúrum, en fótboltinn er líka alltaf jafn vinsæll hjá þeim. 

Á þriðjudeginum gengu tæplega þrjátíu manns í samstöðugöngu í tilefni kvennaverkfallsins sem haldið var á landsvísu. Þar sem konur eru í stórum þjónustuhlutverkum hér í Hrísey var Hríseyjarbúðin lokuð, bókasafnið lokaði, skrifstofur lokuðu og Íþróttamiðstöðin opnaði ekki fyrr en 17:00 vegna verkfallsins. Gekk hópurinn fram hjá helstu kvennavinnustöðum eyjarinnar í gegnum tíðina. Gengið var upp að Gamla skóla sem hýsti grunnskóla, sparisjóð og hreppskrifstofur hér áður fyrr. Svo var haldið að Hríseyjarskóla og Íþróttamiðstöðinni, framhjá gamla Pósthúsinu, niður að frystihúsum, framhjá þar síldarplön voru áður fyrr og endað við Hríseyjarbúðina. Að sjálfsögðu var gengið framhjá mörgum húsum þar sem hríseyskar húsmæður stóðu vaktina allan sólahringinn, allt árið um kring á meðan eiginmenn sóttu sjó og verkamannavinnu. Heiðruðum við sögu þeirra allra.

Norðurorka er enn að vinna í kerfinu og var lokað fyrir heitt vatn um tíma á fimmtudaginn. Við fögnum því að þessi vinna sé í gangi og sýnum þessum tíðu lokunum skilning. Það líður varla sá dagur sem ekki eru einhverjir iðnaðar og verkamenn hér í Hrísey að vinna. 

Mikið af fólki er í Hrísey núna um helgina. Þorpið iðar af lífi og ljós í nánast hverju húsi. Það er svo hlýlegt og vinalegt í kuldanum að sjá. Verbúðin 66 er opin á laugardagskvöldinu og í kvöld renna út ljúffengar pizzur úr Hríseyjarbúðinni. Það þarf enginn að elda sjálfur ef hann vill það ekki hér í Hrísey.

Áfram Hrísey verkefnið er með stutta könnun í gangi um viðhorf til framtíðar Hríseyjar. Við hvetjum öll til þess að taka þátt og svara könnunninni sem finna má hérna. Fleiri svipaðar kannanir um ýmis málefni tengdum Hrísey munu koma inn á veraldarvefinn næstu vikurnar.

Það hefur áður komið fram hvernig hægt er að sjá að veturinn sé mættur. Rjúpan er hvít, gróðurinn ekki grænn og svo er frostið og snjórinn. Annað skýrt merki er þegar fleiri bátar eru á landi en sjó. Tómlegt er við flotbryggjuna núna og verður svo þar til fer að vora. Það er ósköp notalegt hérna í Hrísey þegar eyjan er komin í þennan vetrarham. Á sama tíma hlakkar manni til þess að sjá aftur lífið við höfnina sem kemur með vorinu. Árstíðirnar eru greinilegar hjá okkur þó veðrið sé ekki eins og við erum flest vön í gegnum tíðina.

Talandi um veður. Það viðrar enn vel til þess að taka hring á frisbígolfvellinum. Um að gera að nýta sér að það sé hægt núna í lok október, sérstaklega þegar það er eins og hafgolan hafi gleymt okkur og sólin sýnir sig. Um helgina verður hiti rétt ofan við frostmark, vindur um 5 m/s og sólin um sýna sig aðeins á laugardeginum. Munu íbúar og gestir í Hrísey vakna við hálku á götunum í þorpinu. Ekki svo slæmu að broddarnir þurfi undir strax, en gott að fara að finna þá í geymslunni og máta við nýju gönguskóna. 

  •