Föstudagsfréttir

Dagur Hugi og skólafélagar renna sér í frímínútum
Dagur Hugi og skólafélagar renna sér í frímínútum

Það er fallegur föstudagsmorgun þennan 10.nóvember hér í Hrísey. Sólin skín, smá snjór á jörðu, búið að sandbera flestar ef ekki allar götur og frostið rétt um tvær gráður.

Vikan hefur liðið nokkuð stórslysalaus þrátt fyrir mikla fallhættu í hálkunni. Eins og sum muna talaði fyrrum sóknarprestur Hríseyjarprestakalls um hríseyska skó-tísku eitt sinn. Eiga konur í Hrísey til með að kaupa sér frekar grófbotna skó. Ætli það gildi ekki enn um, ekki bara konur, heldur okkur öll í Hrísey. Svo hjálpar alltaf að skella broddunum undir. Bara muna að taka þá af þegar komið er í búðina og ferjuna.

Um síðustu helgi var haldið mjög vel heppnað og fjölmennt konukvöld á Verbúðinni 66. Voru konur ánægðar með kvöldið og sumum strax farið að hlakka til konukvölds að ári! Eftir konukvöldið opnaði húsið fyrir öllum kynjum og skellt var í karaoki með Daníel í Lukku. Allra heilagamessa var svo á sunnudeginum og var það falleg stund í Hríseyjarkirkju. 

Enn er kór Hríseyjarkirkju að leita nýrra félaga og, eins og áður, er áhugi og vilji tekinn fram yfir gríðarlega hæfileika (sem enginn er þó að efast um að séu til staðar).

Hríseyjarskóli gekk í hús miðvikudaginn 8.nóvember með góðar ábendingar, en 8.nóvember er baráttudagur gegn einelti. Gerðu þau skemmtilegt myndband frá deginum sem sjá má á Facebooksíðu skólans hér. 

Það er ágætt að hafa snjóinn núna þegar myrkrið er að taka yfir þegar líður á veturinn. Þá má sjá að sum eru búin að sækja jólaljósin úr geymslunni og eru að setja þau upp smá saman í húsunum. Það er alltaf gaman þegar þau eru komin upp og við hvetjum húseigendur til þess að hafa ljós í húsunum þó þau standi auð í einhvern tíma. Svo er aldrei að vita nema það komi smá hvati til þess að vanda til verka og setja jafnvel enn fleiri jólaljós upp! Þið verðið að fylgjast vel með á næstunni til að frétta meira um það...

Miðvikudagssúpan hefur slegið í gegn á Verbúðinni og er frábært að hafa þennan valmöguleika þegar Hríseyjarbúðin er lokuð. Þarna gefst líka gott tækifæri fyrir þau sem vinna ein eða eru heimavinnandi til þess að hitta aðra og njóta þess að borða góðan mat í góðum félagsskap.

Ásrún Ýr hóf störf hjá Akureyrarbæ í vikunni og hefur verið í starfsþjálfun á Akureyri. Verður skrifstofa Akureyrarbæjar í Hlein opin þrjá daga vikunnar og mun það vera auglýst hér þegar Ásrún líkur þjálfun í landi og opnar í Hlein.

Þessa dagana líðum mörgum Hríseyjar-tengdum að þau séu komin aftur í tímann um eitt ár. Andey ehf er með samning við Vegagerðina um rekstur á Hríseyjarferjunni fram að áramótum en hvað gerist eftir það hefur ekki fengist uppgefið frá Vegagerðinni. Bæjarráð Akureyrarbæjar ályktaði á fundi sínum í vikunni um málið ,,Þá er að mati bæjarráðs nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem uppi er um rekstur Hríseyjarferjunnar og tryggja að í framhaldinu verði þjónustustig ekki skert frá því sem nú er. Hríseyjarfrerjan Sævar er þjóðvegur íbúa og gesta til og frá Hrísey, núgildandi samningur um rekstur ferjunnar rennur út um áramót og ekki er vitað hvað tekur við". En á sama fundi álytkaði bæjarráð um stöðu Grímseyjarferjunnar. Hægt er að lesa fundargerð bæjarráðs hér. Einnig hefur málið ratað í fjölmiðla og sjá má fréttir frá Kaffinu, Vikublaðinu og RÚV. Hefur Ásrún hjá Áfram Hrísey verið í sambandi við Byggðastofnun, bæjarfulltrúa, þingmann og SSNE vegna málsins svo sem flest eru meðvituð um þessa óvissu. Við bíðum öll spennt eftir svörum frá Vegagerðinni.

Eins og glöggir hafa tekið eftir þá er viðburðadagatalið hér á síðunni stútfullt núna um helgina. Já það er nóg um að vera hérna í Hrísey þennan nóvember. í kvöld eru það föstudagspizzurnar í Hríseyjarbúðinni til þess að byrja helgina. Á laugardaginn klukkan 12 er fyrsti grautardagur Ferðamálafélagsins í Hlein og hlakkar okkur öllum til. Strax eftir graut, eða klukkan 13:00 heldur Þróunarfélag Hríseyjar íbúafund sem við hvetjum ykkur að mæta á. Fundarefni er að skapa sameiginlegan skilning á tækifærum og ógnum og hvernig ólík félög geta unnið að sameiginlegum hagsmunum. Það er gott að muna hið einfalda, saman erum við sterkari! Jólabjórsmakk er svo á Verbúðinni um kvöldið og hefst það klukkan 21:00. Það er tilvalið að snæða kvöldverð þar á undan og þurfa ekkert út á milli.

Um helgina viðrar vel til útiveru, jólaljósa-uppsetninga og grautar. Hiti verður rétt undir frostmarki, sólin að mestu bakvið ský en lætur þó sjá sig smá og vindur um 4m/s. Það er því ekkert til fyrirstöðu að njóta alls þess sem Hrísey hefur upp á að bjóða um helgina.

Svo minnum við á könnun sem Áfram Hrísey er með um viðhorf til framtíðar Hríseyjar og hvetjum við ykkur til þess að svara henni áður en henni verður lokað núna á miðnætti 

      

Íbúafundur um helgina, mætum öll!                Ásrún Ýr undirbýr opnun skrifstofu Akureyrarbæjar í Hlein