Langar þig að stækka vinahópinn?

Samvinna, samheldni, vinátta og virðing. Samfélagið í Hrísey hjálpast að
Samvinna, samheldni, vinátta og virðing. Samfélagið í Hrísey hjálpast að

Það getur verið yfirþyrmandi að flytja á nýjan stað þar sem maður þekkir kannski fá eða enga. Maður er að læra á nýtt umhverfi, nýtt samfélag og hvernig þetta gengur nú allt fyrir sig. Maður getur orðið hræddur um að einangrast og kynnast fáum. Það myndi geta létt á ýmsu ef maður hefði nú bara einhvern til þess að spyrja hvernig þetta virkar nú allt saman hér í Hrísey.

Þar koma vinafjölskyldur til aðstoðar! Vinafjölskylda eru þau eða sá sem tekur á móti nýjum íbúa, sýnir viðkomandi hvernig flokkunarstöðin og gámasvæðið virka, býður í vöfflur og spjall, útskýrir hvar og hvað Hlein er þegar auglýstir eru viðburðir eða fundir þar og kynnir aðra eyjaskeggja fyrir nýja íbúanum. Við erum vön að tala um ,,niðri á svæði" sem er þó hvergi merkt á korti, við mætum í badminton á sunnudögum, sendum krakkana í félagsmiðstöð, þekkjum húsin sem eru með garðakaffi á Hríseyjarhátíð og svo mætti lengi telja. Þetta er allt nýtt og ókunnugt fyrir þau sem ekki hafa búið eða dvalið í Hrísey.

Það kemur oft fyrir, án þess að við sem hér búum áttum okkur á því, að talað er um að gera bara eins og síðast, í fyrra eða eins og alltaf. Fyrir þau sem eru nýkomin í samfélagið, segir það bara ekki neitt og getur valdið því að viðkomandi nái ekki að taka þátt í þeim mörgu viðburðum og gleði sem við höldum hér í Hrísey. Við viljum að sjálfsögðu að allir geti tekið þátt í sem flestu hérna og að öllum finnist þau vera velkomin í okkar góða og samheldna samfélag. 

Við leitum því eftir sjálfboðaliðum til að gerast vinafjölskylda. Áfram Hrísey heldur utan verkefnið og kynnir nýja íbúa fyrir þeim eldri og reyndari. Engin skilyrði eru fyrir þáttöku önnur en vinsemd, virðing og áhugi. Endilega hafið samband við Ásrúnu í síma 866-7786 eða á netfangið afram@hrisey.is til að skrá ykkur sem vinafjölskyldu eða fá frekari upplýsingar.