Rekstur varaaflstöðvar í Hrísey tryggður

Hluti af hópnum sem kom varaaflstöðinni í gang í desember. 
Mynd: Kristín Björk
Hluti af hópnum sem kom varaaflstöðinni í gang í desember.
Mynd: Kristín Björk

Í óveðrinu sem gekk yfir landið í desember reyndi á samstöðu Hríseyinga þegar ljóst var að rafmagnsleysi yrði langvarandi eftir að Dalvíkurlína brotnaði. Galvaskir Hríseyingar gerðu það sem gera þurfti til að ræsa varaaflstöðina sem er í eyjunni, með Bjarna Thor í broddi fylkingar. Eyjan gekk á varaafli í 8 daga og sannaðist þarna mikilvægi varaaflstöðvarinnar. Rarik hafði áður gefið út að til stæði að leggja niður varaaflstöðina í Hrísey og í ljósi fyrrgreindra atburða sendi Hverfisráð Hríseyjar bréf til Rarik, ítrekaði mikilvægi varaafls í Hrísey og óskaði eftir upplýsingum um stöðu á rekstri vélarinnar.

Í svarbréfi frá Rarik kemur fram að raforkukerfið í Hrísey tengist Dalvík um sæstreng, fram að þessu hefur línan til Dalvíkur verið truflanalaus og talin mjög öflug og því hefur Landsnet ekki verið með varaafl á Dalvík. Rarik á varaaflstöð í Hrísey sem ekki hefur þurft að keyra í nokkuð mörg ár. Gert hefur verið ráð fyrir að leggja hana af, vélin er gömul en í þokkalegu ástandi. Í ljósi óveðursins í desember s.l. sem olli m.a. rafmagnsleysi á Dalvík og í Hrísey mun Rarik fresta því að leggja varaaflstöðina í Hrísey niður. Tryggt verður að vélin sé í ásættanlegu ástandi ásamt því að farið verður í allra nauðsynlegustu lagfæringar á húsnæðinu þar sem það þarfnast talsverðra endurbóta. Rarik mun semja við vélstjóra um að sinna keyslu á vélinni, a.m.k. þar til varaafl fyrir Dalvík verður komið í betra stand. Eftir að varaafl er komið á Dalvík, sem einnig getur annað Hrísey, sér Rarik ekki tilgang í að reka varaaflstöð í Hrísey, frekar en slíkt er gert í einstökum hverfum á Akureyri eða Dalvík. Við bilum í sæstreng frá Dalvík til Hrísey er gert ráð fyrir að hægt verði að flytja varaaflstöð út í eyju með tiltölulega stuttum fyrirvara. Þegar ákveðið hefur verið að hætta formlegum rekstri varaaflstöðvar í Hrísey mun Rarik skipuleggja hvernig því verður háttað og kynna þá áætlun fyrir Hverfisráðinu.

Hverfisráð fagnar þessari ákvörðun Rarik og að þetta málefni sé nú í höfn. Starfsmarkmið 3.15 í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar (Brothættar byggðir) var “Tryggt verði að vararafstöð í Hrísey sé til staðar, í lagi og hafi umsjónarmann. Fyrir lok árs 2017.” Málið hefur verið í umræðunni í nokkur ár og ánægjulegt að það sé komið í þennan farveg.