Sundlaugin opnar aftur

Sundlaugar Akureyrarbæjar og Hríseyjar verða opnaðar að nýju mánudaginn 18. maí en líkt og aðrar sundlaugar landsins hafa þær verið lokaðar frá 24. mars vegna Covid-19.

Sundlaugar verða opnaðar á venjulegum tíma og hlakkar starfsfólk þeirra til að taka aftur á móti gestum. Öll hefðbundin starfsemi má fara af stað aftur svo fremi sem hugað er að hreinlæti og sóttvörnum og gestir eru meðvitaðir um þær takmarkanir og leiðbeiningar sem gilda.

Samkvæmt tilmælum yfirvalda er í fyrstu aðeins heimilt að vera með helming þess gestafjölda sem sundlaugar geta venjulega tekið á móti. Þar af leiðandi getur komið til þess að takmarka þurfi aðgang og jafnvel loka tímabundið ef fjöldi gesta nær hámarki. Sú staða getur til dæmis komið upp að fólk þurfi að hinkra um stund ef margir eru í búningsklefa í einu.

Á sund- og baðstöðum er tveggja metra reglan um nándarmörk valkvæð, en gestir eru samt sem áður beðnir um að virða regluna eins og hægt er, einkum á svæðum eins og í búningsklefum og pottum. Jafnframt eru gestir beðnir um að dvelja ekki lengur en 1,5-2 klst. í hverri sundferð. Í samræmi við leiðbeiningar almannavarna verður eimbað lokað fyrst um sinn og eins verða hárþurrkur og sólbekkir ekki í notkun.

Hlökkum mikið til að opna aftur.
Venjuleg vetraropnun er í gildi.