Þróunarfélag Hríseyjar stofnað

Framtíð Hríseyjar er björt
Framtíð Hríseyjar er björt

Vel var mætt í Hlein þegar stofnfundur Þróunarfélags Hríseyjar var haldinn. 

Aðdragandi að stofnun félags eins og Þróunarfélags Hríseyjar hefur í raun verið langur. Árið 2013 kom saman 10 manna hópur sem kallar sig Áhugahópur um framtíð Hríseyjar. Haldið var málþing þar sem unnið var með fjölmörg málefni og hugmyndir. Skýrsla af málþinginu var gefin út í mars 2014 og haldinn íbúafundur í tilefni þess þar sem farið var yfir niðurstöður frá málþinginu. Það var svo árið 2015 sem Hrísey hóf göngu sína í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, undir nafninu Hrísey - perla Eyjafjarðar. Unnið var áfram með málþing og skýrslu Áhugahóps um framtíð Hríseyjar. Í lok árs 2019 lauk Hrísey þáttöku sinni í því verkefni. 

Hríseyingar gripu svo tækifærið í samstarfi við SSNE þegar auglýst voru framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða árið 2021-2022. Inniviðaráðherra auglýsti þá eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar. Byggðaþróunarverkefnið Áfram Hrísey varð þá til og fékk úthlutað styrk til tveggja ára, samtals 10.000.000 kr. Verkefnið og verkefnastjórn var í nafni Ferðamálafélags Hríseyjar en unnið var að stofnun Þróunarfélags Hríseyjar sem mun nú í framhaldinu halda utan mum verkefnið ásamt fleiri verkefnum sem eru í bígerð. Ásrún Ýr Gestsdóttir var ráðin verkefnisstýra Áfram Hrísey í september 2022.

Þróunarfélag Hríseyjar verður leiðandi í almennri byggðar- og uppbyggingaþróun í Hrísey í samvinnu við íbúa, fyrirtæki og félög í Hrísey, ásamt Akureyrarbæ. Öllum var gefið tækifæri til þess að gerast stofnfélagar og auglýst var á hrisey.is eftir áhugasömum einstaklingum, félögum og fyrirtækjum. Stofnmeðlimir Þróunarfélags Hríseyjar eru á fjórða tug.

Athygli skal vakin á því að alltaf er hægt að ganga í félagið. 

Á stofnfundinum voru lesnar upp samþykktir og voru þær samþykktar með öllum greiddum atkæðum. Fyrir fundinn hafði borist eitt framboð í formann stjórnar, enginn bauð sig fram á fundinum og var því Unnur Inga Kristinsdóttir sjálfkjörin við lófaklapp fundargesta. Önnur í stjórn eru Gísli Rúnar Víðisson, Hrönn Traustadóttir, Ingimar Ragnarsson og Ingólfur Sigfússon.

Voru stofnfélagar þau sem fóru með atkvæðisrétt á fundinum. 

Hér er hægt að lesa samþykktir félagsins og fundargerð stofnundar.