Hrísey – perla Eyjafjarðar

Hrísey er í utanverðum Eyjafirði og er önnur stærsta eyjan við Ísland, næst á eftir Heimaey. Hrísey er um 7,5 km að lengd og 2,5 km að breidd þar sem hún er breiðust að sunnanverðu. Eyjan mjókkar til norðurs og þar rís hún hæst í um 110 m.y.s.

Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar allan daginn á einnar til tveggja stunda fresti frá Árskógssandi. Tekur siglingin um 15 mínútur. Hrísey er aðgengilegasta byggða eyja við Ísland.

Íbúar í Hrísey voru um 270 upp úr 1990 en hefur fækkað verulega á síðustu árum. Í upphafi árs voru skráðir 156 íbúar í eyjunni. 

Sjávarútvegur hefur lengst af verið undirstaða atvinnulífs og búsetu í Hrísey. Greinin hefur orðið fyrir áföllum undanfarna áratugi, meðal annars hafa fiskveiðiheimildir horfið að verulegu leyti  úr höndum fyrirtækja í eyjunni. Þegar þetta er ritað hefur nokkrum stöðugleika verið komið á í fiskvinnslu með ráðstöfun aflaheimilda úr potti Byggðastofnunar. Ferðaþjónusta er sókn. Starfsemi í tengslum við nýtingu á hvönn og kerfli hefur byggst upp.

Samráð við íbúa í verkefnum innan Brothættra byggða hefur að jafnaði hafist með íbúaþingi þar sem lagðar eru línur að áherslum og framtíðarsýn. Í Hrísey var þessi vinna nokkuð frábrugðin, því unnin var framtíðarsýn og markmið út frá niðurstöðum íbúafundar sem haldinn var árið 2013. Voru drög að stefnumótun kynnt fyrir íbúum á vel sóttum fundi sem haldinn var í mars.

Þar kom fram að íbúunum finnst mikilvægt að vinna betur með sérstöðu og ímynd eyjarinnar. Standa þurfi betur að markaðssetningu Hríseyjar sem vænlegs búsetukosts, skoða hvort hægt sé að laða fleira ungt fólk til Hríseyjar, t.d. með fríum leikskóla, auk þess að huga sérstaklega að þörfum eldri borgara. Umhverfismál og umhirða voru mörgum ofarlega í huga. Kallað var eftir samstillingu ferju og almenningssamganga  uppi á landi og bættri aðstöðu fyrir farþega á Árskógssandi. Athuga þarf hvort raunhæft sé að hafa ferjuna gjaldfrjálsa og fjölga þannig ferðafólki og jafnvel íbúum. Fundarmenn voru sammála um að Hrísey eigi mikið inni þegar kemur að ferðaþjónustu og allri afþreyingu fyrir ferðamenn. Sérstaða Hríseyjar sem áfangastaðar ætti að vera meginþema í ferðaþjónustunni og tengjast þannig heilbrigðum lífsstíl með áherslu á náttúru eyjarinnar. Einnig komu fram hugmyndir um eflingu atvinnu á sviði fjarvinnslu og símsvörunar, framleiðslu á afurðum sem byggðu á hreinleika eyjarinnar og fleira.

Í nóvember 2015 var Helga Íris Ingólfsdóttir ráðin verkefnisstjóri fyrir verkefnið í Hrísey og hún tók svo einnig við verkefninu í Grímsey í ársbyrjun 2016. Helga Íris hefur, ásamt verkefnisstjórninni, unnið að mótun framtíðarsýnar og markmiða fyrir verkefnið. Starfað verður eftir þeirri stefnumótun út verkefnistímann. Netfang Helgu Írisar er: helga@afe.is

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Sumarið 2016 voru veittir sjö styrkir til jafn margra og margvíslegra verkefna í Hrísey.

Í verkefnisstjórn sitja: Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar, Baldvin Valdemarsson, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Gunnar Gíslason, f.h. Eyþings, Ólafur Búi Ólafsson og Linda María Ásgeirsdóttir f.h. íbúa og loks Kristján Þ. Halldórsson og Eva Pandóra Baldursdóttir frá Byggðastofnun. 

Styrkumsókn

Hrísey, perla Eyjafjarðar Markmið og framtíðarsýn